131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[20:50]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég náði ekki í þann hóp sem komst að til að veita andsvar við ræðu hæstv. fjármálaráðherra þannig að ég kýs að gera hér tvær stuttar athugasemdir í ræðu. Ég á seinni ræðu mína eftir og nóg er nóttin þannig að það þarf víst ekki að biðjast afsökunar á því að nýta sér málfrelsi sitt en ég skal hafa þetta stutt.

Sú fyrri snýr að málflutningi hæstv. fjármálaráðherra en sú síðari að framkvæmd þessarar umræðu hér og þeim svip sem á henni hefur verið.

Hæstv. fjármálaráðherra gerir mikið úr því að með því að bera saman spár, þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans, komi í ljós að þar sé harla lítill munur á. Má ég þá minna á að önnur gögn höfum við ekki í höndum um þessar mundir eftir að Þjóðhagsstofnun sáluga var lögð niður í reiðikasti í fyrra. Hæstv. fjármálaráðherra var hins vegar mjög fáorður um, og það hafa menn reyndar verið hér almennt í dag fyrir utan hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, aðgerð Seðlabankans sem slíka. Mér finnst athyglisvert að menn skauta hér algerlega fram hjá því að það er auðvitað ekki á hverjum degi sem Seðlabanki grípur til þess ráðs að fíra stýrivöxtum sínum upp um heilt prósentustig með þeim afleiðingum sem það auðvitað hefur, með þeim titringi sem það hlýtur að valda og gerði í dag. Dettur hæstv. fjármálaráðherra í hug að reyna að halda því fram að Seðlabankinn væri að þessu ef hann teldi allt í lagi, ef hann hefði ekki áhyggjur af ástandinu? Það er algerlega vonlaust að lesa saman ummælin í skýrslu Seðlabankans og þá aðgerð hans að fíra stýrivöxtunum upp um heilt prósentustig í einu skrefi öðruvísi en þannig að þar á bæ hafi menn miklar áhyggjur af ástandinu. Á sama tíma og aðrir seðlabankar hreyfa stýrivextina til um einhver prómill, sjaldan meira en fjórðung úr prósentu, telur íslenski seðlabankinn ástandið þannig að ekkert minna dugi hér á aðventunni en að rífa stýrivextina upp um heilt prósentustig, með fjárlögin opin og alla þá umræðu uppi sem Seðlabankinn veit auðvitað vel eins og aðrir að hefur tiltekið samhengi.

Svo kemur hæstv. ráðherra hér með aðhaldsfræðin sín og þeir stjórnarliðar. Þeir reyna að útlista fyrir okkur hvernig 20–30 milljarða skattalækkun í aðdraganda mestu þenslu sem íslenska þjóðarbúið hefur gengið í gegnum í háa herrans tíð fari saman. Þeir færa fram þau rök að þetta sé útgjaldastýring. Það er nýtt hugtak sem er mjög í tísku nú, og kenningar líka, að það sé nauðsynlegt að gera þetta svona, að lækka tekjurnar því annars muni útgjöldin fara upp, fylgja skatttekjunum, segir hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, það sé bara regla. Er þá aldrei hægt að hafa afgang á fjárlögum? Hverfur hann ævinlega? Eða er eðlismunur á því hvort afgangur á fjárlögum sé 10 eða 20 milljarðar?

Ég vildi gjarnan heyra hin hagfræðilegu rök fyrir því að það sé skynsamlegt að standa svona að málum, að sleppa þessum tekjum út frá hinu opinbera, setja þá fjármuni í umferð með þeim áhrifum á einkaneysluna í landinu sem m.a. Seðlabankinn varar við, að það sé gáfulegra en að halda þessum tekjum hjá ríkissjóði, ekki endilega og alls ekki til að þær fari allar í útgjöld — eða hvað? Eru menn þá svona kjarklitlir? Er sjálfstraustið svona lítið að menn reikni með að það verði alls ekki hægt, að auka þá afganginn á fjárlögunum — og gera hvað við þá fjármuni? Jú, greiða niður erlendar skuldir til að hamla gegn skuldaaukningu annarra aðila eða borga inn á lífeyrisskuldbindingar framtíðarinnar. Ætlar hæstv. fjármálaráðherra að halda því fram að það væri ekki hagstjórnarlega betri aðgerð við þessar aðstæður að setja þessa fjármuni ekki í umferð, heldur halda þeim hjá hinu opinbera og ráðstafa þeim t.d. með öðru tveggja eða blöndu af þessum tveim ráðherrum?

Ég lýsi eftir hagfræðingi sem er sammála ríkisstjórninni ef það er virkilega afstaða hennar að hagstjórnarlega og efnahagslega sé hitt gáfulegra. Ef menn reikna með því að þeir mundu alls ekki ná að verja aukinn afgang á fjárlögum og hann færi allur í útgjöld sem vissulega geta verið ærin rök fyrir í einhverjum tilvikum og mun sennilega verða hvort sem er er eðlilegt að menn séu hræddir. Af því að menn treysta ekki sjálfum sér er þetta fyrirbyggjandi aðferð, einhver antabus sem menn eru að éta ofan í sig fyrir fram með þessum hætti.

Þá er okkur öðruvísi farið en t.d. Norðmönnum — sem gera hvað? Þeir taka til hliðar árlega stórar fjárhæðir og leggja í olíusjóðinn fræga, plús það að hafa rekið ríkissjóð þar með afgangi og greitt niður allar erlendar skuldir Norðmanna. Ef þeir geta þetta ættum við að geta það líka. Það er algerlega augljóst að þetta væri betri aðferð vegna þess að þá væru þessar tekjur þarna — þegar hvað gerist? Þegar þenslunni lýkur. Þegar viðskiptahallinn hverfur sem verður að gerast einhvern tímann því að ekki rekum við þjóðarbúið með grenjandi halla út á við að eilífu, ad infinitum, það endar illa. Hvað mun þá gerast? Jú, þá munu tekjur ríkissjóðs dragast skart saman vegna þess að þá hættir hæstv. fjármálaráðherra, Geir Hilmar Haarde, eða hvað hann kemur þá til með að heita, að fá tekjur af viðskiptahallanum og þenslunni. Hvers vegna er spáin svona ef hagvöxturinn og einkaneyslan verður enn meiri á næsta ári en eldri spár gerðu ráð fyrir? Af hverju ættu þá tekjur ríkissjóðs að aukast eins og það er? Jú, það er af þessum ástæðum, af því að þetta er eyðsludrifinn hagvöxtur að allt of miklu leyti og hann verkar svona gagnvart ríkissjóði. Það er afar görótt meðal að treysta á þó að ríkissjóður tímabundið fitni á viðskiptahallanum.

Hin athugasemdin lýtur að því eins og ég sagði hvernig þessi umræða hefur farið hér fram og hver framkvæmd hennar hefur verið. Það hefur verið mjög dapurlegt. Það hefur verið framhald af þeirri þróun sem hér hefur ágerst. Ég gagnrýni forseta þingsins mjög harðlega fyrir linku og aumingjaskap gagnvart því að sjá til þess að ráðherrar séu hér og sinni þingskyldum sínum. Þeir menn sem hafa áhyggjur af virðingu þingsins og tala um það þegar þeim þykir svo henta ættu þá að standa sig í stykkinu og sinna embætti sínu af reisn og láta það ekki gerast að sú gamla hefð, að ráðherrar skuli vera hér til svara fyrir málaflokka sína við fjárlagaumræðuna, leki algerlega niður. Var það ekki snautlegt fyrir hæstv. forseta Halldór Blöndal að þurfa að tilkynna það hér aftur og aftur áðan að viðkomandi ráðherrar sem höfðu verið beðnir um að koma til umræðunnar á miðjum degi gætu það bara alls ekki? Snubbóttar tilkynningar frá hæstv. forseta. Engar afsökunarbeiðnir. Það var ekki á honum að sjá að honum þætti þetta verra.

Það er lélegur svipur á þessu, herra forseti. Ábyrgðin er ekki bara viðkomandi ráðherra, heldur á hæstv. forseti að beita áhrifum sínum til þess að umræðan geti farið fram með sómasamlegum hætti. Ríkisstjórninni hefði einmitt verið rétt og skylt að fá það á sig að umræðunni yrði frestað, að forseti hefði sagt hér síðdegis: Nei, þetta gengur ekki. Ef ríkisstjórnin hefur áhuga á að koma sínum eigin fjárlögum í gegn skal hún líka sinna hér þingskyldum sínum og sýna umræðunni og þingmönnum þann sóma að vera hér og til svara. Það tókst með herkjum að draga hér ráðherra í hús í smástund en svo þurftu þeir að rjúka burtu af því að þeir voru búnir að skipuleggja hlaðborð eða eitthvað annað úti í bæ á því kvöldi sem verið er að ljúka 3. umr. um fjárlög. Hvaða ástæður eru svo ríkar að ráðherrar sem höfðu margra klukkutíma aðvörun um að þeir ættu að mæta hér gera það ekki og telja sér sæmandi að láta forsetann fara upp með tilkynningar um að þeir komi því alls ekki við, ráðherrar sem eru á landinu, eru hér í bænum, og hafa þingskyldum að gegna eins og við hin?

Ég kann þessu illa, herra forseti. Ég man þá daga sem mönnum var ekki hlíft við þessu. Þegar Halldór Blöndal, hv. 2. þm. Norðaust., virðulegur forseti, var þingmaður í efri deild og ég var ráðherra lét hv. þm. Halldór Blöndal — þá hefur hann sennilega verið 2. þm. Norðurl. e., hins forna — hringja heim til mína að ganga þrjú að nóttu og krafðist viðveru minnar hér í efri deild og að ég mætti til svara, ekki við fjárlagaumræðu heldur út af bara einhverjum umræðum sem þá voru í gangi. Að sjálfsögðu brást ég vel við og reif mig á fætur og keyrði hér niður eftir alveg á — a.m.k. á leyfilegum hraða. Þegar ég kom í dyrnar kom viðkomandi þingmaður skælbrosandi út á móti, tilganginum var þá náð.

Sama er. Þá var sú hefð og sú venja að ráðherrar litu á það sem algerlega ófrávíkjanlegan hlut af embættisskyldum sínum að mæta til þingsins ef þeir kæmu því við væri þess óskað. Fyrir þessu eru m.a. þau ósköp einföldu rök að ráðherrar hafa þingskyldur eins og aðrir menn, hvort sem þeir eru kosnir eða eru ráðherrar án þess að vera kosnir þingmenn. Það fylgir embættinu. Þess vegna hafa þeir hér málfrelsi og tillögurétt, jafnvel þó að þeir séu ekki sjálfir kjörnir þingmenn, leiðir af sjálfu.

Ég held að menn verði eitthvað að fara að velta þessu alvarlega fyrir sér, herra forseti. Það þýðir ekki að láta þetta bara leka sífellt í þessa áttina og kæruleysið aukast, hroka og virðingarleysi ráðherranna gagnvart þinginu fara vaxandi ár frá ári. Ég mun a.m.k. ekki taka því þegjandi á meðan ég verð hér, hversu lengi sem það verður og hversu mikið sem það dugar. Það getur vel verið að öllum þyki þetta bara leiðindanöldur en það verður þá að hafa það, menn skulu a.m.k. fá að heyra það.

Menn vaxa ekki að virðingu af því að koma svona fram. Er fullfrískum, nýskipuðum ráðherrunum svona erfitt að sinna störfum sínum? Er fólkið svona þreytt og aðframkomið að það geti ekki mætt hérna kannski eftir kvöldmat? Eru þær komnar í rúmið, hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. menntamálaráðherra, sem ég veit ekki betur en að séu hér báðar í bænum og höfðu langan fyrirvara hvað það varðaði að koma hér og svara spurningum. Hvorug taldi sér það fært. Það er ekki góður svipur á þessu, herra forseti, og þó að mér þyki í sjálfu sér miður að messa þetta hér undir lok þessarar umræðu fannst mér ástæða til að gera það. Einhver verður að segja hlutina sem þarf að segja og það er þá best bara að ég taki það að mér.