131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[21:09]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Það er alveg augljóst mál og um það er ekki deilt hér að þetta eru áhyggjuefnin og hættumerkin eru mikil þegar útlánaþenslan er skoðuð, skuldaaukningin að undanförnu og hvert stefnir í þeim efnum, viðskiptahallinn og allt það sem við erum auðvitað með hér undir, skuldir heimila og fyrirtækja.

En ég tel að menn séu að ætla Seðlabankanum að gera í raun og veru annað en hefur verið ákveðið með lögum á Alþingi að hann skuli gera. Í mínum huga var aldrei neinn vafi á því þegar ákvörðunin var tekin um að gjörbreyta grundvallarlöggjöf Seðlabankans og taka út öll önnur markmið úr markmiðsgreinum laganna en verðstöðugleikamarkmiðin ein að þá voru menn að velja það að fara inn á þá braut að Seðlabankinn ræki mjög harðsvíraða stefnu sem eingöngu miðaðist við verðstöðugleikann. Það eru engin gengismarkmið lengur í lögunum um Seðlabankann og það þýðir ekki fyrir hv. þm. Einar Odd Kristjánsson að koma hér og láta eins og gömlu, góðu dagarnir séu áfram við lýði, að Seðlabankinn eigi að reyna að hafa áhrif á gengið og stýra hlutum í gegnum það. Það er bara liðin tíð. Það var tekin ákvörðun um það, ég held einróma, á Alþingi að fara út í þessi verðstöðugleikamarkmið. Ég hef að vísu oft velt því fyrir mér hvort það hafi verið yfirsjón að ganga svo langt.

Hvað gæti Seðlabankinn gert annað en að beita vöxtunum? Jú, það er talað um bindiskylduna, en það væri nú hálfankannalegt að fara að bakka inn í hana aftur eftir að vera nýbúinn að ákveða að lækka hana, og Seðlabankinn bendir réttilega á að þannig er þróunin í löndunum í kringum okkur. Og þá er fátt annað eftir nema ef Seðlabankinn, í samráði við Fjármálaeftirlitið, hækkaði kröfurnar um eiginfjárhlutföll fjármálastofnananna til þess að reyna að neyða þær þannig til að draga saman efnahagsreikninga sína og umsvif. Auðvitað veltir maður því fyrir sér eins og þær hafa hegðað sér að undanförnu hvort það gæti ekki verið nauðsynlegt stýritæki og kannski öryggisráðstöfun gagnvart því sem kann að vera, því miður, handan við hornið að það fari eitthvað loft úr blöðrunni á næstu missirum.