131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:14]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ríkisháskólarnir búa við allt of lág fjárframlög sem og háskólastigið allt og hér er lögð til aukning til að mæta þeim fjárhagsvanda sem skólarnir standa frammi fyrir en þeir búa við allt of lág fjárframlög af hálfu hins opinbera miðað við nemendafjölda þeirra. Sá vandi er fyrirsjáanlegur og borðleggjandi og því leggjum við til að þeim vanda verði mætt hér og nú í stað þess að berja í brestina í fjáraukalögum á næsta ári og láta skólana engjast í þeim vanda sem þeir eru í.

Á nokkrum árum hefur t.d. átt sér stað hrein bylting í bæði meistara- og doktorsnámi í skólunum, sérstaklega Háskóla Íslands, og hefur nemendafjöldi í framhaldsnámi tólffaldast, úr liðlega 100 nemendum í yfir 1200. Þessari jákvæðu þróun og svo aukinni eftirspurn í skólana á að mæta með auknum fjárveitingum til kennslu og rannsókna en þeim hefur ekki verið mætt og styðst skólinn í auknum mæli við stundakennara sem ekki fæst fé til rannsókna. Því leggjum við til þessi fjárframlög til skólanna.