131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:15]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þessi tillaga er viðbragð við þeim ásetningi ríkisstjórnarflokkanna að þrengja sífellt að rekstri opinberu háskólanna sem hafa í auknum mæli þurft að taka upp aðgangstakmarkanir á sama tíma og stjórnvöld þykjast ætla að hækka menntunarstig þjóðarinnar. Opinberu háskólarnir eru þvingaðir til að hækka skráningargjöld sín og eru beinlínis sveltir inn á braut skólagjalda. Slíkt ógnar því grundvallaratriði í menntastefnu þjóðarinnar sem við höfum talið að standa þyrfti vörð um, nefnilega jafnrétti til náms.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur spyrnt við fótum gegn þessari þróun og við munum gera það áfram. Við teljum engar röksemdir fyrir því að Háskóli Íslands þurfi að láta sér lynda það að í ár fái hann einungis fjármagn fyrir 46% af kennsluframlagi til rannsókna þegar það var 67% fyrir örfáum árum.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð skilur ekki stefnu stjórnvalda í þessu. Þess vegna greiðum við tillögunni atkvæði. Ég segi já.