131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:18]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um hreina sýndartillögu og sýndarmennskutillögu. Þannig er mál með vexti að í vor var lokið starfi nefndar þar sem sátu fulltrúar heimamanna og menntamálaráðuneytis. Þar var ákveðið hvernig staðið skyldi að þessum málum. Það kom fram á fundi með heimamönnum og þingmönnum Norðvest. að ekki skorti fjármagn til þess, hvorki á þessu ári né því næsta, til að halda áfram þeirri vinnu í samræmi við það sem heimamenn vildu.

Það liggur fyrir að til staðar er fjárveiting á þessu ári upp á 20 millj. kr. Það liggur fyrir að til staðar er fjárveiting á næsta ári upp á 20 millj. kr. — 40 millj. kr. á tveimur árum til að hefja undirbúning að háskólakennslu á Ísafirði eins og við heimamenn höfum verið að berjast fyrir. Þessi tillaga er eingöngu gerð til að reyna að slá einhverjar pólitískar keilur. Hún hefur enga efnislega þýðingu, hún er sýndartillaga, sýndarmennskutillaga sem við eigum að fella.