131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:22]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Sá fáheyrði atburður átti sér stað í íslensku skólakerfi síðasta vor að fjölda umsækjenda í framhaldsskólana var vísað frá og eftir allan hamaganginn stóð það eftir að þeir sem voru að sækja um skólavist og nám eftir að hafa fallið brott, sem kallað er, eða gert hlé á námi sínu án útskriftar fengu flestir ekki skólavist. Ekki hafði verið gert ráð fyrir þessum nemendum við skólann í samanburði við þá fjölgun sem átti sér stað vegna stærri árganga í framhaldsskólunum. Þetta var fáheyrð og meginbreyting á skólastefnu okkar sem fékk enga umræðu hér. Þó að einstakir skólar hafi náð árangri í glímunni við brottfallið eigum við enn þá heimsmetið þar. Við þurfum að bæta verulega í til að gera almennilega við framhaldsskólana og því styð ég eindregið þessa tillögu um aukna fjárveitingu til skólanna þannig að þeir geti tekið við þeim nemendum sem þangað sækja, hvort sem það eru nýnemar eða nemar sem hafa áður fallið á brott og sækja um skólavist öðru sinni. Ég segi já.