131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:28]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Árlega kemur fjöldi íslenskra listamanna til greina inn á heiðurslaunalista Alþingis. Þeir fjórir einstaklingar sem hér er bætt við eiga sannarlega skilið sæti á þessum lista, en þeir eru líka fleiri. Það er áralöng hefð hjá Alþingi Íslendinga að það sé unnið í sátt og samlyndi að uppstillingu á þennan lista á hverju ári.

Ég harma það að sú hefð skuli hafa verið brotin en það hefur gerst núna annað árið í röð að meiri hlutinn leggur fram tillögu sem er ekki til umræðu. Það er mjög miður að svo skuli að verki verið í menntamálanefnd Alþingis. Ég hvet til þess að þau vinnubrögð sem hv. menntamálanefnd er að reyna að innleiða nú verði afnumin og að framvegis verði reynt að eiga samtal um þessi mál þar sem allir stjórnmálaflokkar sem sæti eiga á Alþingi komi jafnir að málum.