131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:36]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er aldeilis ótrúleg meinbægni hjá hæstv. ráðherrum og meiri hlutanum múlbundnum að baki þeim að geta ekki unnt Mannréttindaskrifstofu Íslands þess að vera sjálfstæður og sérmerktur liður á fjárlögum þannig að skrifstofan gangi að fjárveitingum sínum vísum og að sjálfstæði hennar og óhæði sé þar með tryggt, m.a. og ekki síst gagnvart framkvæmdarvaldinu sem hún þarf að veita aðhald og eftir atvikum að gagnrýna, og hefur gert á undanförnum árum.

Þetta mál er kristaltært og ef hæstv. ráðherrar skilja ekki af hverju verið er að berjast fyrir því að óbreytt skipan haldist og skrifstofan sé sjálfstæð að þessu leyti er eitthvað mikið að hjá þeim. Þá er eitthvað mikið að í sálarbúi þeirra þannig að það er ískyggilegt inn í hvaða heim glittir í gegnum þessa meinbægni ríkisstjórnar Íslands undir forustu dómsmálaráðherra Björns Bjarnasonar, utanríkisráðherra Davíðs Oddssonar og forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar sem eiga sérstaka skömm skilið fyrir framgöngu sína í þessu máli. Þingmaðurinn segir já.