131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:50]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur að tilstuðlan ríkisstjórnarinnar verið strikuð út af fjárlögum Íslendinga. Breytingin er ekki rökstudd, alls ekki. Mannréttindaskrifstofa Íslands er rekin af öllum, ég held örugglega öllum þeim félagasamtökum sem starfa á sviði mannréttindamála á Íslandi. Hún hefur skilgreint verksvið undir hatti þessara félagasamtaka. Nú ætla hæstv. ráðherrar að láta fjármunina sem hafa runnið til þessarar skrifstofu vera í einhverjum óskilgreindum potti þar sem þeir aðilar sem starfa að mannréttindamálum á Íslandi geta sótt um. Þetta er algerlega órökstudd tillaga, algerlega, og ég mótmæli henni. Ég sé ekki betur en að hér sé eitthvað rotið beinlínis við afstöðu ríkisstjórnarinnar til mannréttindamála almennt.

Það orðspor sem ríkisstjórnin kemur sér upp með þessum gjörningi á eftir að fylgja henni sem skuggi inn í framtíðina og hann á eftir að verða ríkisstjórninni til mikillar vansæmdar. Ég segi já við breytingartillögunni.