131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:55]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Útreiðin sem sveitarfélögin í landinu fá í samskiptum við þessa ríkisstjórn er löngu orðin fræg að endemum. Það sem vekur sérstaka athygli auðvitað er metnaðar- og þó sennilega frekar viljaleysi hæstv. félagsmálaráðherra til að berjast fyrir málaflokki sínum. Það virðist vera sem hæstv. ráðherra, samanber ræðuhöld hans á vettvangi sveitarfélaganna og hér á Alþingi, uni því vel að vera undir skóhæl íhaldsins og komast hvorki lönd né strönd með málaflokk sinn.

Þessi breytingartillaga er lítils háttar viðleitni til þess að laga stöðu sveitarfélaganna á næsta ári með 700 millj. kr. viðbótarfjárveitingu í jöfnunarsjóð og dugar þó auðvitað hvergi nærri til til að rétta stöðu sveitarfélaganna almennt. Hún er þó í samræmi við óskir þeirra um fjármagn til að taka á allra brýnasta bráðavanda verst stöddu sveitarfélaganna. Og það að hæstv. félagsmálaráðherra skuli ekki einu sinni reyna að leggja því lið að fá slíka fjármuni segir meira en mörg orð um vilja-, getu- og metnaðarleysi hans.