131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:58]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þegar útlit var fyrir að hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson næði ekki kjöri á Alþingi í aðdraganda kosninganna síðustu gerði ríkisstjórnin samning við Öryrkjabandalag Íslands um kjör öryrkja. Lífeyrir hinna yngstu skyldi tvöfaldaður og síðan skyldi hann lækka um 421 kr. fyrir hvert ár sem liði. Sá kjarasamningur var birtur í öllum fjölmiðlum landsins fyrir kosningar, hann var kynntur í Þjóðmenningarhúsinu en þegar Framsókn hafði aukist fylgið og verið kosin á þing kom hæstv. heilbrigðisráðherra hér í fyrra, sagðist verða að áfangaskipta efndunum og gæti ekki efnt nema tvo þriðju að þessu sinni.

En þetta árið er engan síðari áfanga að sjá. Nú hafa þeir gerst svo ósvífnir að lýsa því yfir að það verði aldrei neinn síðari áfangi vegna þess að því miður sé ekkert mark takandi á samningum við ríkisstjórn Íslands þegar öryrkjar og hinir fátækustu í landinu eiga í hlut. Þeir verða aftur og aftur að draga ríkisstjórn Íslands fyrir Hæstarétt (Forseti hringir.) og láta dæma sér mannréttindi sín fyrir dómstólum. Ég harma það, herra forseti, ég harma það.