131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:00]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér er á ferðinni ein af þremur tillögum sem við formenn stjórnarandstöðuflokkanna flytjum sameiginlega. Með því viljum við undirstrika þessi mál og þar kemur fyrst til atkvæða þessi tillaga um að efna samninginn við öryrkja sem gerður var í aðdraganda alþingiskosninganna vorið 2003. Það er sérstaklega smánarlegt í ljósi forsögunnar að ríkisstjórnin sem hefur troðið illsakir við öryrkja og verið dæmd fyrir mannréttindabrot á þeim á því kjörtímabili var að reyna að vinna sér það til aflausnar að gera við þá samning. Því var auðvitað fagnað að því marki sem innihald þess sannings var mjög jákvætt.

Hæstv. heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson er hér gerður að ómerkingi orða sinna. Það gerir hann reyndar sjálfur með því að snúa nú við blaðinu frá því sem hann lýsti yfir í fjölmiðlum áður. Einkanlega aumlegur er einnig hlutur hæstv. forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar en aðild hans að þessum samningi var sérstaklega hampað í aðdraganda kosninga, væntanlega til að veiða honum atkvæði eins og hv. síðasti ræðumaður benti réttilega á.