131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:11]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur öllum verið ljóst að þessari stofnun, Samkeppnisstofnun, hefur verið haldið í fjársvelti í mörg ár. Þrátt fyrir það hefur hún náð miklum árangri, eins og raun ber vitni í olíuverðsamráðsmálinu og allir hafa verið upplýstir um.

Það kemur mér dálítið á óvart að Framsóknarflokkurinn skuli ekki styðja tillögunar því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið þessari stofnun í fjársvelti. Með þessari tillögu köstum við eiginlega björgunarhring yfir til Framsóknarflokksins sem gæti þá náð einhverju fram sem hann hefur stefnt að lengi. Það er hins vegar alveg augljóst, virðulegi forseti, að hann treystir sér ekki til þess núna.