131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:14]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Þá er komið að lokaafgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2005 og nú skal blekkingarleiknum haldið áfram. Við höfum heyrt hvern hv. stjórnarþingmann af öðrum reyna að berja í sig kjark með því að fullyrða að hér sé allt svo gott og hér þurfi engu að breyta. Aðvaranir hafa komið fram, m.a. frá Seðlabanka Íslands þar sem í ljós kemur m.a. að forsendur fjárlaganna eru brostnar. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, talsmaður stærri stjórnarflokksins, sagði það í umræðum í gær að forsendur væru brostnar.

Herra forseti. Það gengur ekki enn eitt árið að samþykkja fjárlög sem ekki eru marktækt plagg. Fjárlög eiga að vera eins og önnur lög, lög sem við getum treyst og lög sem við getum farið eftir. Því miður munu fjárlög næsta árs ekki nýtast okkur í baráttunni við verðbólgu og við að viðhalda stöðugleikanum.

Forseti. Þingflokkur Samfylkingarinnar tekur ekki þátt í þessum blekkingarleik og situr þess vegna hjá.