131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:16]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Við þessa lokaafgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2005 er mér efst í huga sá glannaskapur, sú ábyrgðarlausa sigling sem hæstv. ríkisstjórn er að fara með þjóðarskútuna í. Útlánagleði bankanna og skattalækkana- og stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar knýr Seðlabankann til þeirra óvenjulega harkalegu aðgerða að hækka stýrivexti sína á jólaföstunni um heilt prósentustig í einu lagi. Það er ljóst að forsendur þessa fjárlagafrumvarps eru afar ótraustar og brostnar um margt. Alvarlegust eru ruðningsáhrif stóriðjuframkvæmdanna sem nú eru að koma fram af fullum þunga með stórversnandi skilyrðum fyrir almennt atvinnulíf í landinu, sérstaklega útflutnings- og samkeppnisgreinar. Fram undan er efnahagslegur ólgusjór vaxandi verðbólgu, viðskiptahalla, vaxtahækkana og raungengis krónunnar í sögulegu hámarki. Það er ljóst að herkostnaðurinn af stóriðju- og skattstefnu ríkisstjórnarinnar verður mikill.