131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:19]

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Þau fjárlög fyrir árið 2005 sem hér er verið að samþykkja af ríkisstjórnarflokkunum eru óskhyggjufjárlög. Því miður er það svo að stjórnarliðar eru í ákveðnu afneitunarferli. Mismunur á milli þjóðhagsspár Seðlabankans og forsendna fjárlaga frá fjármálaráðuneytinu er mikill. Himinn og haf er þarna á milli. Nægir að nefna gengisvísitöluna eða stýrivextina.

Ríkisstjórnin er auk þess að hækka skatta mjög mikið (Gripið fram í.) til að safna í sarpinn fyrir ímynduðum skattalækkunum ríkisstjórnarflokkanna. (Gripið fram í.) Efnahags- og viðskiptanefnd fundaði eftir að Seðlabankinn birti spá sína en sá ekki ástæðu til að breyta áliti sínu. Þetta eru skýrustu dæmi um þá afneitun sem hér á sér stað. Ríkisstjórnarflokkarnir eru því miður í afneitunarferli í ríkis- og efnahagsmálum og treysta á að þetta reddist allt saman einhvern veginn, því miður.

Þar að auki, þó að það sé lág upphæð, er dreift á borð þingmanna á sama tíma og verið er að ræða fjárlög í 3. umr. útgjaldaauka upp á 130–150 millj. vegna Tækniháskóla sem ekki er tekinn inn.

Virðulegi forseti. Því miður eru allar forsendur þessa fjárlagafrumvarps fallnar. Ég greiði ekki atkvæði með þessu.