131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Ummæli forsætisráðherra í sjónvarpinu.

[13:35]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Þetta mál hefur oft verið rætt áður. Það liggur alveg ljóst fyrir að Íraksmálið var margrætt á Alþingi og það var margrætt í utanríkismálanefnd. Hins vegar liggur alveg ljóst fyrir og hefur legið fyrir allan tímann að það var síðan framkvæmdarvaldið sem þurfti að taka lokaákvörðun um það hvort við styddum áform bandamanna okkar. Og við gerðum það.

Við skulum fara í gegnum öll þessi mál, fyrst Bosníu þar sem við tókum beinan þátt í málinu sem aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Það var öðruvísi mál. Hið sama má segja um Kosovo þar sem við vorum beinir þátttakendur vegna þess að við erum aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Það sama á ekki við um Afganistan og heldur ekki Írak þar sem við erum ekki beinir þátttakendur. Það er að sjálfsögðu framkvæmdarvaldið sem hefur þá ábyrgð að taka af skarið í slíku máli. Það gerðum við og það liggur alveg ljóst fyrir að allan tímann höfum við gengist við þeirri ábyrgð.

Ég geri mér það hins vegar alveg ljóst að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur verið andvígur öllum þessum málum. Hann var líka andvígur viðskiptabanni á Írak. Hvað tók hv. þm. það oft upp á Alþingi að vera andvígur viðskiptabanninu í sambandi við Írak? Mér þætti fróðlegt að vita hvað hann vildi gera í þessu máli. Vildi hann að Saddam Hussein væri þarna áfram? Hann var á móti viðskiptabanni. Hann var á móti því að taka af Írak. Hann var á móti því að gera nokkurn skapaðan hlut. Það væri nær fyrir hv. þingmann að gera einhvern tíma grein fyrir því hvað hann vildi gera til að koma í veg fyrir þau hrottalegu mannréttindabrot sem voru framkvæmd í Írak.