131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Ummæli forsætisráðherra í sjónvarpinu.

[13:37]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg óþolandi hvernig ráðherrar leyfa sér að tala utan þingsalar eftir að hafa farið sínu fram án samráðs við utanríkismálanefnd og án samráðs við þingið. Fram til loka þings í fyrra sem lauk aðfaranótt 16. mars 2003 talaði hæstv. þáverandi utanríkisráðherra þannig að hann vildi að Hans Blix og menn hans fengju meiri tíma, að vopnaleitarmenn fengju meiri tíma. Það var ekkert í málflutningi hans sem gaf annað til kynna.

Ég var að fá mér útskrift af síðustu umræðunni á Alþingi 12. mars 2003, fjórum dögum fyrir þinglok. Þar vék hv. þm. Ögmundur Jónasson að þessum málum og er hræddur við hvernig Ísland ætli að hegða sér. Þá kemur hæstv. núverandi utanríkisráðherra, þáverandi forsætisráðherra, og segir:

„Ég átta mig ekki á því af hverju hv. þm. Vinstri grænna kjósa að haga orðum sínum svo hér að hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnin vilji stuðla að árás á íröksku þjóðina. Menn vita auðvitað að það er ekki svo.“

Og svo fer hann hörðum orðum um Saddam af því að menn hafa alltaf í öðru orðinu farið hörðum orðum um Saddam en stríðsundirbúningur snerist ávallt um það hvort vopn fyndust eða ekki. Ég hlýt að vísa til þess að ákvörðun um innrás í Írak mun hafa verið tekin 18. mars og loftárásir hefjast 19. mars. Þann dag senda formenn stjórnarandstöðu bréf til hv. formanns utanríkismálanefndar, Sigríðar Önnu Þórðardóttur, og biðja um fund til þess að fá upplýsingar um hvað hafi gerst og á hvaða forsendum sú ákvörðun hafi verið tekin fyrir Íslands hönd. Þann 21. mars kemur svo hæstv. utanríkisráðherra á fund utanríkismálanefndar til að svara áleitnum spurningum. Síðan getur núverandi forsætisráðherra, fyrrverandi utanríkisráðherra, sagt í sjónvarpinu í gær:

„Við tókum að sjálfsögðu af skarið eftir að hafa rætt við ýmsa aðila, þar með talið utanríkismálanefnd og rætt málið á Alþingi.“