131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Ummæli forsætisráðherra í sjónvarpinu.

[13:39]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Tilefni þessarar umræðu eru ummæli hæstv. forsætisráðherra í sjónvarpinu í gær þar sem rætt var um aðdraganda þess að Íslendingar lýstu yfir stuðningi við innrásina í Írak. Hæstv. forsætisráðherra segir að Íslendingar hafi verið beðnir um þrennt: Að styðja það að Saddam Hussein yrði komið frá völdum á grundvelli ályktunar Sameinuðu þjóðanna nr. 1441 — þar vitnar hann reyndar ranglega í þá yfirlýsingu — að heimiluð yrðu afnot af Keflavíkurflugvelli í þessu skyni og að Íslendingar lýstu yfir stuðningi við uppbyggingu í Írak ef til innrásar kæmi.

Í mars 2003 staðfesti hæstv. núverandi utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, þetta í viðtölum. Hann sagði m.a., með leyfi forseta:

„Íslendingar hafa veitt heimild til yfirflugs yfir íslenska flugumsjónarsvæðið. Í öðru lagi heimilum við afnot af Keflavíkurflugvelli ef þurfa þykir. Í þriðja lagi tökum við þátt í uppbyggingu í Írak eftir að ófriði lýkur. Í fjórða lagi tökum við pólitíska afstöðu með því að ályktun 1441 verði fylgt eftir að loknu fjögurra mánaða þófi.“

Þegar hér var komið sögu hafði þingflokkur VG sett fram þingsályktunartillögu um að Íslendingar lýstu því yfir að hvorki yrði veitt aðstaða hér á landi né nokkur stuðningur við árásarliðið. Þvert á móti yrði því lýst yfir afdráttarlaust að Íslendingar fordæmdu yfirvofandi hernaðarofbeldi Bandaríkjastjórnar. Þessi tillaga fékkst ekki borin undir atkvæði á þinginu. Síðan leyfðu menn sér að tala á þann veg sem hér hefur ítrekað verið gert, að Íslendingar heiti meira að segja efnahagsaðstoð í kjölfar eyðileggingar sem yrði af völdum stríðsins, sem yrði með stuðningi og ásetningi af Íslands hálfu.

Með öðrum orðum eru menn tilbúnir að lýsa yfir stríði eða stuðningi við þá sem ætla í stríð og heita efnahagsaðstoð í kjölfarið án þess að um það fari fram umræða hér í þinginu, hvað þá að um það sé hér tekin lýðræðisleg ákvörðun.