131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Ummæli forsætisráðherra í sjónvarpinu.

[13:43]

Sólveig Pétursdóttir (S):

Hæstv. forseti. Málefni Íraks er að verða einn af föstum dagskrárliðum Alþingis. Svo virðist sem stjórnarandstöðuflokkarnir séu í samkeppni um að koma máli þessu að á dagskrá þingsins. (Gripið fram í.) Rétt er að vekja athygli hæstv. forseta á því að enn er til umræðu þingsályktunartillaga frá stjórnarandstöðunni um Írak, þ.e. 3. mál þingsins. Ég held að rétt væri að ljúka þeirri umræðu áður en farið er að ræða um sama mál undir liðnum um störf þingsins.

Þá bendi ég á að utanríkismálanefnd er með málið til skoðunar að beiðni stjórnarandstöðunnar og ég teldi farsælast, hæstv. forseti, að nefndin fengi frið til að klára vinnu sína við málið en að þingheimur væri í stöðugum deilum um það í þingsalnum. (Gripið fram í: Hvernig væri að hún fundaði þá um málið?)

Ályktanir Sameinuðu þjóðanna um afvopnun Íraks voru í fullu gildi fyrir innrásina og öllum mátti vera ljóst að aðgerðum var hótað ef ekki yrði orðið við þeim ályktunum. Saddam Hussein þráaðist við í áraraðir og varð ekki við ályktunum öryggisráðsins varðandi gereyðingarvopn. Mótstaða hans varð til þess að mjög erfitt var að treysta nokkrum upplýsingum sem frá írökskum stjórnvöldum komu. Engin stefnubreyting hafði orðið af hálfu íslenskra stjórnvalda í afstöðu til hættunnar sem stafaði af ógnarstjórninni í Írak. Ákvarðanir um stuðning við aðgerðirnar voru teknar í ljósi ályktana Sameinuðu þjóðanna sem í gildi voru og á grundvelli upplýsinga sem fengnar voru frá bandamönnum okkar. Við treystum því mati bandamanna okkar á þeirri hættu sem að steðjaði.

Fyrir innrásina í Írak hafði málið verið ítarlega rætt og það lá ljóst fyrir hvert stefndi. Í því sambandi má vísa til stefnuræðu forsætisráðherra í október 2002, umræðna í utanríkismálanefnd í febrúar og mars 2003 og auk þess má vísa til skýrslu utanríkisráðherra og ræðu fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í febrúar það ár.