131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Ummæli forsætisráðherra í sjónvarpinu.

[13:47]

Mörður Árnason (Sf):

Svarið er vel hægt að veita hæstv. forsætisráðherra, forseti, ef hann þyrði að mæta í þá umræðu sem hér hefur verið frestað um Íraksmálið vegna þess að hann vildi ekki vera þar við, og ekki hæstv. utanríkisráðherra heldur.

Svar Samfylkingarinnar getur verið mjög einfalt. Við höfum sömu afstöðu og spænskir jafnaðarmenn í þessu máli.

Vinsæl flóttaleið hjá ráðherrum Framsóknarflokksins er að koma sér undan eigin verkum með því að ráðast á vinstri græna. Það er kannski ekki gustuk að gera það. Þeir voru spurðir hér áðan: Ja, hvað hefðuð þið gert við fjöldamorðingjann Saddam Hussein, hinn ógurlega? Svar hæstv. þáverandi utanríkisráðherra, núverandi forsætisráðherra, hef ég frá 27. janúar 2003, ekki tveimur mánuðum fyrir innrás. Þá segir hann þetta, með leyfi forseta, hér á þingi:

„En ég held að allir geti verið sammála um það að ef þessi maður [sem heitir Saddam Hussein] býr yfir gjöreyðingarvopnum með þeim afleiðingum sem það gæti haft í för með sér, þá stendur alþjóðasamfélagið frammi fyrir mjög erfiðri stöðu. Það hlýtur að vera krafa okkar Íslendinga eins og annarra að þeir afvopnist. Það er krafa Sameinuðu þjóðanna.“ — Þetta sagði Halldór Ásgrímsson 27. janúar 2003.

Og áfram:

„Hins vegar ef í ljós kemur að hann býr ekki yfir gjöreyðingarvopnum, þá er málið væntanlega leyst.“

Þetta sagði Halldór Ásgrímsson, hæstv. þáverandi utanríkisráðherra og núverandi forsætisráðherra, 27. janúar 2003: „Þá er málið væntanlega leyst.“ Þá lá ekki á að koma múgmorðingjanum mikla frá völdum vegna þess að þá hafði Halldór þessa afstöðu. Og hana hafði Halldór alveg fram að því að kallað er í hann hér upp í forsætisráðuneyti, sem þá var, þegar hæstv. núverandi utanríkisráðherra Davíð Oddsson beygði Halldór Ásgrímsson til stuðnings við Bandaríkjamenn og stefnu þeirra í Írak. (Gripið fram í.) Þar fyrir utan hafði þingheimur enga ástæðu til að ætla að hæstv. núverandi forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson hefði aðra skoðun en þessa og því stendur enn þá upp á hann að hann hefur brotið 24. gr. þingskapalaga. Það er það sem hann á að biðjast afsökunar á (Forseti hringir.) og gera eitthvað í í staðinn fyrir að standa hér og kasta skít í aðra menn.

(Forseti (BÁ): Forseti vill biðja hv. alþingismenn að gæta orða sinna.)