131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Ummæli forsætisráðherra í sjónvarpinu.

[13:49]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Því miður heyrði ég hvorki né sá þennan þátt í sjónvarpinu í gærkvöldi, Kastljós, vegna þess að ég var að starfa hér í þingnefnd á Alþingi. Miðað við þá útskrift sem ég fékk í hendur núna rétt áður en ég kom hingað inn á þingið finnst mér þó liggja fyrir að hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra og núverandi forsætisráðherra er eiginlega búinn að viðurkenna að ákvörðunin hafi ekki verið samþykkt formlega í ríkisstjórn. Þá liggur í raun og veru fyrir, eins og hér kemur fram, að það eru að sjálfsögðu „við“ — þegar hann er að tala um sjálfan sig og fyrrverandi forsætisráðherra, núverandi utanríkisráðherra — sem bera ábyrgð og taka af skarið.

Ég get ekki lesið annað út úr þessum texta, ef maður skoðar hann, en að fyrir liggi að formleg ákvörðun hafi aldrei verið tekin í þessu máli, það hafi ekki verið bókað í ríkisstjórn. Það hefur komið hér fram að í þingflokki Framsóknarflokksins hefur þetta ekki verið rætt og það eru þá tvö vitni á móti einu hér ... (Gripið fram í.) Já, úr þeim flokki, Framsóknarflokknum. Ég held að menn velkist ekkert í vafa um að það voru tveir ráðherrar í ríkisstjórninni sem tóku þessa ákvörðun og menn sitja bara uppi með það. (Gripið fram í.)