131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Ummæli forsætisráðherra í sjónvarpinu.

[13:58]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Þessi umræða er með hreinum ólíkindum. Ég sagði í þessum sjónvarpsþætti að þessi mál hefðu verið margrædd í utanríkismálanefnd. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að staðfesta það hér áðan. Þessi mál voru margrædd á Alþingi. Ef ég man rétt hafði Alþingi farið heim vegna þingkosninga þegar innrásin átti sér stað og það vill svo til að eftir þessa alvarlegu atburði og þær ákvarðanir sem voru teknar fóru fram kosningar í landinu.

Eitt fannst mér líka athyglisvert í þessari umræðu, þegar hv. þm. Mörður Árnason sagði: Samfylkingin hefur sömu afstöðu og spænskir jafnaðarmenn. Punktur.

Það var mjög gott að vita að það er þá hægt að lesa afstöðu spænskra jafnaðarmanna þegar maður áttar sig á afstöðu Samfylkingarinnar. En hver er afstaða hennar? Fór hún sérstaklega til Washington eins og hún ætlaði að gera til þess að taka sig út af einhverjum lista? Nei. Spánverjar kölluðu heim hermenn sína enda tóku þeir þátt í þessum aðgerðum beint. Það gerðum við ekki. Síðan hafa spænskir jafnaðarmenn ákveðið að standa áfram að uppbyggingunni í Írak … (Gripið fram í: Við líka.) Þið líka, já. Þá er það niðurstaðan að Samfylkingin styður ályktun 1456, þar með umboð fjölþjóðahersins (MÁ: Komdu í umræðuna.) og þar með umboð bráðabirgðastjórnarinnar í Írak. (Gripið fram í.) Það er mjög (Gripið fram í.) mikilvægt að þetta komi fram. (Gripið fram í.)

Ég tek eftir því að Samfylkingunni er mjög órótt í þessari umræðu allri. (Gripið fram í.) Þá ætti Samfylkingin að koma hér og skýra afstöðu sína betur. (Gripið fram í: Kofi Annan.)