131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Mælendaskrá í athugasemdaumræðu.

[14:01]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég er nokkuð undrandi á því að ekki skuli vera gætt jafnræðis með málsaðilum. Hæstv. utanríkisráðherra talaði þrisvar í umræðum um störf þingsins. Ég hefði ekki talið ósanngjarnt að ég fengi það sömuleiðis sem málshefjandi við umræðuna. Ég á margt órætt við hæstv. utanríkisráðherra, ekki síst vegna þess sem hann sagði í þriðju ræðu sinni og fundarstjóri virðist ekki ætlast til þess að við þingmenn höfum mikla möguleika til að bregðast við.

Ég ætla ekki að misnota þetta ræðuform til að fara aftur út í efnislega umræðu en ég skora á forseta þingsins og hæstv. utanríkisráðherra að greiða fyrir því að umræðan um Írakstillögu þá sem hér liggur fyrir og er óútrædd ... (Forsrh.: Er þingmaðurinn að tala við utanríkisráðherra eða forsætisráðherra?) Hæstv. forsætisráðherra, fyrrv. utanríkisráðherra. (HBl: Er þetta ekki um þingsköp?) Þetta er um fundarstjórn forseta, hv. 2. þm. Norðaust. (Gripið fram í.) Getur forseti séð til þess að ég fái frið til þess að ljúka máli mínu?

(Forseti (BÁ): Forseti mælist til þess að hv. þingmenn gefi ræðumanni kost á að ljúka máli sínu.)

Ég tel mig vera að ræða um fundarstjórn forseta því ég er að gera beinar athugasemdir við fundarstjórn forseta, sem lét hæstv. forsætisráðherra fá orðið þrisvar sinnum í umræðunni. Hv. þm. Halldór Blöndal má hrista hausinn í marga hringi mín vegna. Það breytir því ekki að það er fullkomlega eðlilegt að ég geri þessar athugasemdir, eða hvar stendur það í þingsköpum að ráðherrar hafi svo mikla yfirburðaaðstöðu í umræðum af þessu tagi að þeir megi tala þrisvar (Gripið fram í: Tvisvar sinnum.) um liðinn um störf þingsins og taka þar með drjúgan hluta af þeim 20 mínútum sem í það er ætlað í upphafi hvers fundar. Það sem ég er svo að segja vegna athugasemda minna um fundarstjórn, og snýr beint að forseta, er að ég fer fram á það að forseti reyni að sjá til þess að umræðunni um Írakstillöguna verði áfram haldið áður en þing fer í jólahlé, en hún liggur hér hálfrædd, og að hæstv. forsætisráðherra verði þá til svara, þannig að við höfum meira jafnræði með okkur að ræða þessa hluti og m.a. fara yfir þær mjög svo alvarlegu rangfærslur sem hæstv. forsætisráðherra fór með í sjónvarpinu í gærkvöldi, sem snúa beint að þinginu og stöðu þess í þessu sambandi, þ.e. utanríkismálanefnd. Það er auðvitað ekki líðandi að þar sé beinlínis haldið fram röngum hlutum.

Ég beindi öðru til hæstv. forsætisráðherra, að hann létti trúnaði af því sem eftir honum er haft í fundargerð utanríkismálanefndar frá 19. febrúar 2003. Ég hygg að það yrði ákaflega upplýsandi fyrir menn að heyra hvernig hæstv. forsætisráðherra ræddi þar um stöðuna en eðli málsins samkvæmt er það í valdi hans að létta þar af trúnaði sem er á orðum hans þar inni.

Svo er mergurinn málsins sá, herra forseti, að mönnum finnst fara mikill tími í umræður um þetta mál endurtekið. Það er til ein leið að leysa það, að ríkisstjórnin og ráðherrarnir leggi spilin á borðið, upplýsi um aðdraganda málanna sólarhringana fyrir 19. mars 2003. Hvað er verið að fela þar? Hvers vegna er þessi skrípaleikur í kringum það, herra forseti?