131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Mælendaskrá í athugasemdaumræðu.

[14:04]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það kemur mér mjög á óvart að forseti skuli úrskurða með þessum hætti. Það kom mjög á óvart að hæstv. forsætisráðherra væri heimilað að fara þrisvar í umræðuna. Ég er mjög gagnrýnin á umræðuna og tek undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um hvernig haldið var á henni. Ég vil líka gagnrýna með hvaða hætti farið er í umræðuna af hálfu stjórnarmeirihlutans og hæstv. ráðherra. Við erum ekki að taka upp Íraksmálið. Við erum að ræða ummæli ráðherra sem féllu í sjónvarpinu í gær þar sem ráðherrann kýs að haga málflutningi sínum þannig, og ég ítreka að ég ætla ekki í efnisumræðu, að það hafi verið rætt í utanríkismálanefnd á Alþingi að við fórum á lista 30 viljugra ríkja. Um þetta snerist umræðan í dag um störf þingsins.

Það að formaður utanríkismálanefndar skuli svo koma hér og ræða hversu oft við höfum rætt Íraksmál í utanríkismálanefnd, tillögur, þingsályktanir eða annað og að við séum að reyna að fá það fram hvað gerðist daganna fram til 19. mars hjá ríkisstjórninni eða tveimur mönnum eða einum manni hjá utanríkismálanefnd kemur því ekkert við sem hæstv. ráðherra lét falla í gær í sjónvarpsþætti og við gagnrýnum í dag. Þetta finnst mér skipta mjög miklu máli. Ég vil að þingið komist út úr því að vísa í allar umræður um Írak í hvert einasta skipti sem við höfum reynt að leiða í ljós hvernig ákvörðunin var tekin um að Ísland færi á lista 30 viljugra ríkja til þess að fara inn í Írak með hernaði.

(Forseti (BÁ): Forseti vill að gefnu tilefni taka fram að hann er tilbúinn að hlusta á gagnrýni á fundarstjórn sína en ekki efnislegar umræður um málið sem rætt var áðan.)