131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Mælendaskrá í athugasemdaumræðu.

[14:10]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Mér er þessi túlkun gersamlega óskiljanleg og bið um betri rökstuðning við henni. Stjórnarskráin takmarkar þennan rétt með þingsköpum. Hún gerir eins og stjórnarskrárgjafar gera gjarnan, þeir segja eitthvað í stjórnarskránni og tala síðan um að frekar skuli kveðið á um það í lögum.

Hins vegar má segja að hvert orð sem hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, mælir um málið er kærkomið, vegna þess að forsetum þingsins hefur láðst að koma honum til að mæta við umræður um það mál sem við erum sífellt að ræða í krampakenndum stíl utan dagskrár eða í upphafi fundar um störf þingsins. Ef forsetar sinntu því verki sem þeim er falið samkvæmt sömu þingskapalögum væri nær að afgreiða málið með skynsamlegum umræðum þar sem hver maður fengi skikkanlegan tíma til að ræða mál sitt. Þar sem hæstv. núverandi forsætisráðherra getur svarað almennilega, sem hann hefur ekki gefið sjálfum sér tækifæri til, þeim ásökunum sem á hann eru bornar. Ég hef sagt að þetta sé lögbrot. Á móti því hefur ekki verið borið og meðan ekki er borið á móti því stendur það hjá þeim ræðumanni sem hér stendur í stólnum.

Ég óska þess að forseti gefi hæstv. forsætisráðherra tækifæri til þess og knýi hann til þess að koma í umræðu sem stendur yfir í þinginu um nákvæmlega þetta mál, um Írak, um listann, um það sem hæstv. forsætisráðherra reynir að bera af sér og það sem hann hafði svo mörg orð um í sjónvarpsþættinum í gær að hann var orðinn ekki bara margsaga heldur alsaga í því máli.

Að lokum þetta. Ég held að það hljóti að verða tilefni til sérstaks fundar í forsætisnefnd og meðal formanna þingflokka að ráðherrar fái þennan mikla ræðutíma í óvenjulegri umræðu, í umræðu um störf þingsins en ekki í umræðu um sérstök mál ráðherrans þar sem það kynni að eiga við, enda væri leitað um það sérstaks samkomulags. Mér finnst þetta skrýtið hjá 6. varaforseta þingsins og leita eftir því að þetta verði staðfest af forsætisnefnd allri eða þeim forseta sem hefur verið kosinn sem forseti Alþingis þó hann hafi ekki alltaf virkað sem slíkur.