131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Mælendaskrá í athugasemdaumræðu.

[14:17]

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Ég tel fyllstu ástæðu til þess að hvetja forseta til að endurskoða þá ákvörðun sem hann tók áðan úr forsetastóli. Ég tek undir þær óskir sem hér hafa komið fram um að málið verði rætt á vettvangi forsætisnefndar í góðu tómi, menn fari vandlega yfir þessa ákvörðun með það í huga að breyta henni. Ég sé ekki hvernig á að vera hægt að komast að þeirri niðurstöðu sem forseti komst að. Ég sé heldur ekki hvernig þingmenn eiga að geta unað því að á Alþingi sem þingmenn eru kosnir til skuli ráðherrar sem eru ekki kosnir eiga fullt og ótakmarkað málfrelsi en þingmenn búi við skorður í þeim efnum. Það er ósamræmi á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds sem ég get ekki sætt mig við sem fulltrúi á löggjafarþinginu.

Ég vil benda á að það sem fram kemur í þingsköpunum gerir ráð fyrir öðru. Það gerir ráð fyrir því að takmörk séu sett á málfrelsi ráðherra. Ég vísa m.a. til 44. gr. þingskapalaga þar sem fjallað er um tilllögur til þingsályktunar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við fyrri umræðu má hver ræðumaður tala tvisvar, flutningsmaður allt að fimmtán mínútum og aðrir þingmenn og ráðherrar allt að átta mínútum í senn.“

Þýðir þetta þá að þetta ákvæði um tvisvar varðandi ráðherra er marklaust? Svo mundi vera ef úrskurður forseta stæðist.

Ég vísa líka til 48. gr. sem fjallar um umræður um skýrslur en þar segir að við þær umræður megi þingmenn og ráðherrar tala tvisvar. Á það þá bara við um þingmenn en ekki ráðherra? Það getur augljóslega ekki verið vilji löggjafans sem setti þessi lög að ekki beri að skilja lögin eins og þau standa.

Ég vísa líka í 49. gr. þingskapa um fyrirspurnir en þar segir um munnlegar fyrirspurnir til ráðherra:

„Hvor um sig, fyrirspyrjandi og ráðherra, má ekki tala oftar en tvisvar …“

Ef þessi úrskurður stendur þýðir það væntanlega að ráðherra má tala oftar en tvisvar.

Hið sama má nefna í 50. gr. á tveimur stöðum um umræður utan dagskrár þannig að ég held, herra forseti, að ef úrskurðurinn stendur óbreyttur séum við búin að breyta ansi miklu í þeim þingsköpum sem við höfum sett okkur. Þá er ég hræddur um að taka þurfi miklu fleira til athugunar.