131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:16]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir að í mörgum tilfellum getur verið mjög góður kostur að fela einkaaðilum í einhverri mynd að reka menntastofnanir og það hefur gefist vel hér á landi, bæði á háskólastigi sem og á öðrum stigum. Um það deilum við ekki, ég og hv. 10. þm. Reykv. n. Hins vegar fullyrti hann, að sagt hefði verið að óeðlilegt væri að velja þetta rekstrarform. Það er alls ekki rétt. Ég fullyrti aldrei að óeðlilegt væri að velja einkahlutafélagaformið frekar en sjálfseignarstofnunarformið. Ég spurði hins vegar: Af hverju er það valið? Hverjir eru kostirnir við það umfram sjálfseignarstofnunarformið? Hverjir eru gallarnir við það? Leiðir það til þess að sjálfstæði háskólanna sé ógnað? Leiðir það til þess að faglegu starfi skólanna sé á einhvern hátt ógnað á kostnað rekstrarlegra sjónarmiða, o.s.frv.?

Þetta var það sem ég spurði hæstv. ráðherrann um, en fékk engin svör. Hv. þingmaður svaraði því fyrir sitt leyti áðan, að á þessu væri lítill og óverulegur munur og skipti í sjálfu sér engu máli. Ég spurði hvort þetta skipti máli, af hverju var það valið o.s.frv. Ég óskaði skýringa á af hverju þetta rekstrarform væri valið umfram annað. Ég fullyrti ekki að það væri óeðlilegt eða verra, ég hef einfaldlega ekki enn þá aflað mér upplýsinga um það, en mun að sjálfsögðu gera það í menntamálanefnd á næstu mánuðum og missirum þar sem málið mun malla áfram, í ítarlegum og vandvirknislegum meðförum nefndarinnar. Ég spurði bara um kosti og galla formsins, en fullyrti ekki að það væri óeðlilegt. Hins vegar getur vel verið að sú staðreynd að hæstv. ráðherra og þeir sem bera málið fram svari ekki spurningunni, gefi þá mynd að eitthvað sé óeðlilegt og tortryggilegt. Ég veit það ekki. Ég fullyrti ekki að svo væri, heldur spurði einungis um kosti og galla þessa rekstrarforms umfram sjálfseignarstofnunarformið.