131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:21]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ágætt að hv. þingmaður dró fram ágætt plagg frá framtíðarhópnum svokallaða sem hefur lagt fram ýmsar róttækar hugmyndir á ýmsum sviðum samfélagsins. Verst að hv. þingmaður las skjalið ekki betur en raun ber vitni, því þarna er um ýmsar hugmyndir að ræða. (SKK: Ég skal gera það í ræðu minni.) Já, já. Stefna Samfylkingarinnar í þessum málum er ákaflega skýr og var ítrekuð á síðasta landsfundi flokksins. Hins vegar er sá reginmunur á Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum í þessu máli, hv. þingmaður hefði líka getað vitnað í greinar frá mér sjálfum um akkúrat þetta mál, að Samfylkingin þorir að taka heildstæða og opinskáa umræðu um kosti og galla skólagjalda. Eiga nemendur að taka meiri þátt í rekstri skólanna o.s.frv.? Um það fjallar þetta plagg, um fullt af hugmyndum sem mér finnast sumar góðar og aðrar vondar, en Samfylkingin fyrst og síðast vill og ætlar að taka opinskáa og hreinskilna umræðu um hvernig á að fjármagna háskólana. Eiga nemendur að gera það í auknum mæli? En við ætlum ekki að gera það sem Sjálfstæðisflokkurinn gerir í sínum aumkunarverða feluleik, að lauma inn skólagjöldum á grunnnám í ríkisháskólana bakdyramegin, taka út einstakar greinar við sameiningu við aðra skóla og mismuna þeim þannig og láta greiða skólagjöld fyrir aðgang að þeim en ekki öðrum greinum, án þess að tekið sé tillit til þess án nokkurrar einustu umræðu um málið.

Það vita allir að það er stefna Sambands ungra sjálfstæðismanna og ungliðanna í flokknum að einkavæða og taka upp skólagjöld. Það hefur hins vegar aldrei komið fram í máli hæstv. ráðherra eða annarra forustumanna í flokknum hér á þinginu, nema þá kannski hv. þingmanns, að skólagjöld í grunnnám í ríkisháskólunum sé stefna flokksins, en það er hins vegar verið að berja það í gegn bakdyramegin og það er aumkunarverð pólitík, hæstv. forseti, (Gripið fram í.) og ég skora á hæstv. ráðherra og hv. þingmann að ganga sömu slóð og Samfylkingin, taka um þetta opna og hreinskipta umræðu án þess að vera að lauma inn slíkum níðingsverkum bakdyramegin.