131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:23]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um afnám laga nr. 53/2002, um Tækniháskóla Íslands, sem sett voru á hinu háa Alþingi fyrir u.þ.b. tveimur árum eftir áralanga baráttu Tækniskóla Íslands fyrir að fá viðurkennt að hann væri skóli á háskólastigi, eftir það sem ég vil kalla misheppnaðar einkavæðingartilraunir sjálfstæðismanna, þegar þeir reyndu að sameina Tækniskóla Íslands Margmiðlunarskólanum, sællar minningar, sem var ömurleg tilraun sem að sjálfsögðu fór afar illa, og er sjálfstæðismönnum til háðungar. Þegar hæstv. menntamálaráðherra hóf ræðu sína á að rifja upp söguna varðandi tilraunir til að sameina Tækniskóla Íslands, verkfræðideild Háskóla Íslands, þá hefði mér þótt tilhlýðilegt að við í salnum fengjum ítarlegra söguágrip í þeim efnum, því nú segja aðilar sem standa að verkfræðideild Háskóla Íslands að ekki hafi verið fullreynt í þeirri sameiningu. Formaður Tæknifræðingafélags Íslands telur jafnvel álitlegri kost að sameina Tækniháskóla Íslands verkfræðideild Háskóla Íslands, en að fara út á þá braut sem hér hefur verið ákveðin.

Nú hef ég enn ekki gert endanlega upp hug minn varðandi hvor þessara tveggja leiða sé fýsilegri. Ég á eftir að fjalla um málið inni í hv. menntamálanefnd og áskil mér fullan rétt í þeim efnum. En miðað við allar þær greinar sem hafa verið skrifaðar og ummæli þeirra sem til þekkja, og ég hef verið að lesa síðustu daga, þá tel ég möguleikann á sameiningu Tækniháskóla Íslands og verkfræðideildar Háskóla Íslands ekki hafa verið fullreyndan.

Eitt merki um það kemur í ljós þegar læknadeild Háskóla Íslands virðist eiga frumkvæði að því að bjóða til sín deildum á heilbrigðissviði sem Tækniháskóli Íslands hefur hingað til hýst, en það eru geislafræðingar og meinatæknar. Mér fyndist það afar skynsamleg ráðstöfun í því sem nú er að gerast, að þær tvær greinar fari inn í Háskóla Íslands og ég fagna því ef hæstv. menntamálaráðherra getur lent því máli þannig. Hins vegar er ljóst af ræðu hæstv. ráðherra að það er enn ekki komið í höfn. Það kannski lýsir svolítið flumbruganginum og fljótaskriftinni sem er á öllu þessu máli. Það voru ekki liðnar margar vikur frá því það fréttist á skotspónum að unnið væri að að samkomulagi milli Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík um sameiningu þessara tveggja skóla, þangað til á borðinu lá viljayfirlýsing undirrituð af hæstv. menntamálaráðherra. Ég held að margt í þessu máli hefði mátt vinnast betur á undirbúningsstigi og af því ég nefni þessa viljayfirlýsingu þá finnst mér í hæsta máta óeðlilegt að hún skuli ekki fylgja frumvarpinu sem fylgiskjal.

Mér finnst að greinargerðin með frumvarpinu hefði líka mátt vera ítarlegri, sérstaklega þegar ljóst var að ekki koma mikið fleiri upplýsingar fram í framsöguræðu hæstv. menntamálaráðherra. Þar eru ákveðnir þættir afar óljósir. Einn þeirra nefndi ég í andsvari við hæstv. ráðherra áðan, en það varðar rétt þeirra nema sem nú stunda nám í frumgreinadeild. Það hefur komið í ljós að háskólaráð hins nýja skóla, sem eins og fram hefur komið á hvorki að vera skipað kennurum né nemendum háskólans, því miður, hefur gefið út yfirlýsingu um að nemendur frumgreinadeildar eigi að greiða skólagjöld um leið og þeir verða komnir upp á háskólastig í náminu.

Ég tel að hæstv. menntamálaráðherra verði að koma með yfirlýsingu við þessa umræðu um að þetta sé ekki meining hennar. Því eins og orðanna hljóðan er í frumvarpinu, þá virðist vera að nemendur sem nú stunda nám í skólanum í Tækniháskóla Íslands, og eru búnir að ákveða námsframvindu sína, eigi að fá að stunda námið ótruflaðir af skólagjöldum til enda. Við í þessum sal verðum að fá að vita hvort það er ekki alveg öruggt að menntamálaráðherra sjái til þess að hið nýja háskólaráð vitkist og heimili þeim nemum sem nú eru í frumgreinadeild og ætla sér áfram upp á háskólastigið, að fá að ljúka sínu háskólaprófi án skólagjalda. Það er ekki hægt að ljúka þessari umræðu, virðulegi forseti, án þess að þeirri spurningu sé svarað.

Ég hef reyndar áður í umræðu á Alþingi spurt þessarar spurningar, þegar ég átti orðastað við hæstv. menntamálaráðherra um — ég man ekki lengur hvort það var utandagskrárumræða eða umræða um störf þingsins — þannig að hæstv. ráðherra hefur haft nægan tíma til að undirbúa svar sitt.

Tækniháskóli Íslands er ekki gamall skóli. Hann erfði marga góða hluti frá Tækniskóla Íslands, en hann erfði líka eitt sem enginn sómi hefur verið að að ganga með í farteskinu og það var skuldahalinn. Tækniskóli Íslands hefur átt í viðræðum við menntamálaráðuneytið árum saman um þennan skuldahala, og hv. menntamálanefnd Alþingis hefur ekki farið varhluta af þeirri umræðu, en það hefur ekki verið við það komandi, né neitt ljós í myrkrinu í þeim efnum. Stjórnvöld hafi ekki séð ástæðu til að koma til móts við Tækniháskólann eða Tækniskóla Íslands á sínum tíma og losa hann við þennan skuldahala.

Nú er sagt abrakadabra, stofnaður sjálfstæður háskóli eins og hæstv. menntamálaráðherra kýs að kalla háskóla sem er einkarekinn eða rekinn af einkaaðilum og þá er allt í einu hægt að fella niður skuldahala Tækniháskóla Íslands upp á 110–125 milljónir. Ég fagna því auðvitað að sú ákvörðun hafi verið tekin, en mér finnst ekki rétt og mér finnst það pólitísk mistök að gera það ekki fyrr en ljóst er að sjálfstæðismönnum tekst ætlunarverkið að gera Tækniháskóla Íslands að einkaskóla. Þá er hægt að opna budduna og koma með 110–125 milljónir og greiða upp skuldahala skólans. Hvers vegna var það ekki gert fyrr? Hvers vegna er í lagi að gera það nú?

Virðulegi forseti. Það verður líka að gera við það athugasemd hér, eins og reyndar var gert í umræðum um fjárlagafrumvarpið, að ekki er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að upphæðin verði greidd á árinu 2005. Það er því ljóst áður en fjárlagafrumvarpið er samþykkt að stefna á þessari háu upphæð í fjáraukalög fyrir árið 2005 sem vitað er fyrir samþykkt fjárlaganna að komi til með að falla á ríkissjóð.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur svarað andsvörum varðandi rekstrarformið einkahlutafélag. Ég krefst þess að hæstv. ráðherra komi með það skýrt og skorinort í síðari ræðu sinni hvers vegna þetta félagsform er valið, hvers vegna á að reka skólann í formi einkahlutafélags?

Auðvitað hefur hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sýnt okkur á spilin með því að þetta er ein af kennisetningum frjálshyggjumannanna að það verði að vera hægt að hagnast af rekstri stofnana á borð við þessa. Það er auðvitað einfaldast í einkahlutafélagi að fá þá útkomu að eigendum viðkomandi hlutafélags verði greiddur út arður. Ég vil fá að vita það við þessa umræðu hvað aðstandendur einkahlutafélagsins ætla sér að hagnast mikið? Hver verður hagnaðarhluti þeirra einstaklinga sem ætla sér að reka þetta einkahlutafélag? Liggur það fyrir? Það væri ekki verra að fá um það umræðu við 1. umr. því skýra verður hvers vegna einkahlutafélagaformið er valið. Það hefur aldrei verið sett upp skólastofnun á háskólastigi á Íslandi sem á að reka undir þessu félagsformi.

Virðulegi forseti. Eitt af því sem hefur komið upp í umræðunni nú þegar varðar nám í tæknifræðinni og í þeim greinum öðrum sem mögulega yrðu lokaðar í þessum nýja háskóla, í þessu nýja einkahlutafélagi, á þann hátt að þær byðust ekki lengur nemum innan opinberu háskólanna. Þar með værum við komin með ákveðnar greinar á háskólastigi sem stæðu fólki ekki til boða nema gegn háum skólagjöldum. Þetta tel ég afar mikla öfugþróun.

Ég ítreka þau orð mín að ég fagna fjölbreytileika í flóru framboðs háskólanáms á Íslandi, en það má aldrei verða þannig að við lokum ákveðnar greinar inni í einkaskólunum án þess að þær séu líka til staðar í opinberu skólunum svo nemar geti valið um það hvort þeir ætli í skóla sem innheimtir allt að 200 þús. kr. skólagjöld eða jafnvel meira á ári, eða hvort þeir taki viðkomandi fag, nám eða grein í opinberum háskóla sem hefur ekki lagaheimild til að innheimta skólagjöld.

Hér er um afar mikilvægt atriði að ræða. Ef hv. menntamálanefnd gerir ekki bragarbót í þessum efnum sé ég ekki annað en að ég verði að taka það að mér að boða breytingartillögu í þessum efnum sem bannar hreinlega að sjálfseignarstofnunum á háskólastigi verði gert kleift að rukka há skólagjöld fyrir nám sem er ekki í boði í hinum opinberu háskólum skólagjaldsfrítt.

Við ræddum áðan í andsvari, ég og hæstv. menntamálaráðherra, um eflingu háskólastigsins almennt. Hæstv. ráðherra sakaði okkur þingmenn stjórnarandstöðunnar um að sjálfstæðu háskólarnir ættu ekki stuðning okkar eða nytu ekki sannmælis. Ég vísaði þeim ummælum hæstv. ráðherra til föðurhúsanna. Jafnframt ítrekaði ég það sjónarmið mitt að sú mikla uppbygging sem orðið hefur í flóru sjálfstæðra háskóla eða einkaháskóla eða sjálfseignarstofnana á háskólastigi eða hvað við viljum kalla þetta skuli hafa orðið að talsverðu leyti á kostnað opinberra háskóla. Hæstv. menntamálaráðherra mótmælti mér í andsvari sínu og sagði að það væri ekki rétt að uppbyggingin hefði orðið á kostnað hinna opinberu háskóla. Gott og vel. Þau orð hennar standa, en þá vil ég ítreka það sem fram kom í hv. menntamálanefnd Alþingis í morgun þegar rektorar hinna opinberu háskóla voru hjá okkur þar sem við ræddum skólagjaldamál háskólanna. Í umræðum við rektorana þrjá kom á daginn það sem þingmenn vita, að opinberu háskólana vantar hundruð milljóna til þess að hægt sé að ná endum saman á árinu 2005. Háskóla Íslands vantar 300–400 millj. til þess að hann geti haldið úti óbreyttu starfi út næsta ár, 2005, Háskólann á Akureyri vantar 100 millj. til þess að hann geti haldið úti óbreyttu starfi út næsta ár og Kennaraháskóli Íslands hefur hafnað þúsund umsóknum frá nemendum sem hefðu eflaust að stórum hluta getað komist í gegnum inntökukerfi Kennaraháskólans til þess eins að standa við þann þrönga stakk sem honum er skorinn í fjárlögum íslenska ríkisins. Ætlar hæstv. menntamálaráðherra svo að þylja áfram þuluna um að fjármunir opinberu háskólanna hafi aldrei verið meiri, án tillits til nemendafjölgunar sem hefur orðið í þessum skólum?

Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra: Hvernig má það vera að hér eigi að efla háskólastigið, fjölga nemendum á háskólastigi og hækka menntunarstig þjóðarinnar án þess að hlustað sé á rótgrónar stofnanir eins og Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands? Ég vísa því á hæstv. menntamálaráðherra að svara því ákalli sem kemur frá hinum opinberu skólum og stend við þau orð mín þegar ég segi að hæstv. menntamálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa látið gróskuna hjá sjálfstæðu háskólunum bitna á hinum opinberu háskólum. Það er ekki hægt að lesa dæmið öðruvísi.

Hæstv. forseti. Áðan var minnst á að hið nýja einkahlutafélag væri búið að skipa stjórn og stjórn einkahlutafélagsins væri jafnframt háskólaráð. Það er gagnrýnt að hvorki nemendur eða kennarar virðast eiga aðild að háskólaráðinu. Ég ítreka að ég treysti því að hæstv. menntamálaráðherra og hv. menntamálanefnd Alþingis geri athugasemdir við það, því það er alveg ljóst að við getum ekki heimilað að hér séu reknir háskólar þar sem starfsfólk og nemendur eiga ekki aðild að stjórn viðkomandi skóla. Þannig að ég treysti því að fá viljayfirlýsingu hæstv. menntamálaráðherra áður en umræðunni lýkur sem lýsir sjónarmiðum hennar í þessum efnum og vona að hún verði í þá veru að sjálfsagt og eðlilegt sé að þessu sé breytt, að kennarar og nemendur háskólans komi til með að eiga aðild að háskólaráði.

Það hefur talsvert verið skrifað um þessi mál síðustu vikurnar eftir að ljóst varð að hverju stefndi í þessum efnum. Hér hefur verið vitnað, ég hef reyndar vitnað oftar en einu sinni í grein eftir Einar H. Jónsson sem er formaður Tæknifræðingafélags Íslands og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson vitnaði í sömu grein í ræðu sinni áðan, það er ekki að ósekju því það er margt athyglisvert í greininni og sömuleiðis í grein eftir Steinar Friðgeirsson sem er formaður Verkfræðingafélags Íslands. Þessir tveir heiðursmenn hafa ritað eins og ég segi athyglisverðar greinar um verkfræðimenntunina annars vegar og tæknifræðina hins vegar. Það kemur afar sterkt í ljós í grein Einars H. Jónssonar að tæknifræðingar hafa verulegar áhyggjur af stöðu tæknifræðinámsins.

Hæstv. menntamálaráðherra svaraði fyrirspurn frá mér úr þessum stóli fyrir einhverjum tveim, þrem vikum og sagði að þær áhyggjur væru ástæðulausar, viðkomandi sem bæru hag tæknimenntunarinnar fyrir brjósti þyrftu ekki að óttast eitt eða neitt í þeim efnum. Við þessa umræðu verður hæstv. menntamálaráðherra að gefa okkur sem höfum þessar áhyggjur haldbetri svör hvað þetta varðar.

Ljóst er að Tæknifræðingafélag Íslands og Verkfræðingafélag Íslands hefur sent frá sér ályktanir sem styðja að ástæða sé til þess að hafa ákveðnar áhyggjur. Ég tel alveg nauðsynlegt að farið verði aðeins nánar út í það hér, þar sem nám í verkfræði annars vegar og nám í tæknifræði hins vegar eru mjög ólíkar námsgreinar, námsleiðir. Námið er byggt upp á ólíkan hátt. Námið í tæknifræði er þrjú og hálft ár, en námið í verkfræði er fimm ár. Kröfur til aðfaranámsins eru afar ólíkar, til að hefja verkfræðinám þurfa nemendur að hafa lokið stúdentsprófi, en til að hefja tæknifræðinám er gerð krafa um sveinspróf eða tveggja ára starfsreynslu auk stúdentsprófs eða frumgreinadeildarprófs.

Það kemur líka fram í þeim greinum sem hér er vitnað til að það sé dálítið merkilegt að skoða flóruna hér og bera hana saman við flóruna á Norðurlöndum þar sem vöxturinn hér hafi verið hjá verkfræðingum og í verkfræðináminu, en svo mun ekki vera á Norðurlöndunum. Þar eru tæknifræðingar mun fleiri en verkfræðingar. Það væri athyglisvert að fá upp umræðu um þessi mál og verður að sjálfsögðu gert í menntamálanefnd þegar hún fer að fara yfir hverju þetta sætir.

Það er alveg ljóst að huga þarf sérstaklega að stöðu tæknifræðinnar í þessum nýja Tækniháskóla, því ef marka má skrif einstaklinga sem til þekkja virðist eiga að leggja ofuráherslu á verkfræðina, en tæknifræðin geti orðið hornreka.

Einnig vil ég nefna til sögunnar grein sem vekur mann til mikillar umhugsunar um þessi mál, almennt um menntun í verkfræði og tæknifræði. Það er grein sem birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 25. nóvember sl. og er skrifuð af Valdimar K. Jónssyni, prófessor emeritus við verkfræðideild Háskóla Íslands, en hann starfaði þar í 32 ár og hefur nýlokið afar farsælu starfi eins og menn í þessum sal þekkja. Valdimar skrifar athyglisverða grein sem hann kallar: Á að bjóða upp á verkfræðinám í sameinuðum Háskóla Reykjavíkur og Tækniháskóla Íslands? Ég tel að greinin verði mjög haldgott skýringargagn fyrir menntamálanefnd í umfjöllun sinni, þar sem Valdimar spyr spurninga eins og þessarar: Eflir þetta háskóla sem rannsóknastofnanir? Hann svarar spurningunni reyndar líka og segir: Nei. Hann spyr spurninga eins og: Er fjárhagsleg skynsemi í að kenna verkfræði á tveimur stöðum? Hann svarar reyndar þeirri spurningu líka neitandi.

Allt þetta þarf menntamálanefnd auðvitað gott svigrúm til þess að skoða og menn sem þekkja vel til, eins og Valdimar K. Jónsson og fleiri, verða auðvitað kallaðir fyrir nefndina. Ég hef ekki gert upp hug minn endanlega hvað varðar alla þætti málsins, en treysti því að hæstv. menntamálaráðherra svari í seinni ræðu sinni skýrt og skorinort þeim spurningum sem hafa verið lagðar fyrir hana við 1. umr.