131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:04]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni fyrir heiðarlegar yfirlýsingar sínar varðandi afstöðu sína til skólagjalda. Þingmaðurinn lýsti því yfir að hann útilokaði ekki að tekin yrðu upp skólagjöld, svo lengi sem það yrði ekki gert á kostnað jafnréttis til náms og nefndi Lánasjóð íslenskra námsmanna í því sambandi. Þetta er alveg í samræmi við þann málflutning sem t.d. Heimdallur og Samband ungra sjálfstæðismanna hefur talað fyrir í sambandi við töku skólagjalda. Þetta er líka í samræmi við það sem fram kemur í umræðuplaggi Samfylkingarinnar um rekstrarform í almannaþjónustu sem ég vék hér að áðan og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, sem er nú að ganga út úr salnum, og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir áttu aðild að að semja og endurspeglar stefnu Samfylkingarinnar til töku skólagjalda.

Auðvitað hafa hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar ekki verið tilbúin til að standa við stóru orðin vegna þess að ég man ekki betur en að þetta ágæta plagg hafi horfið af heimasíðu Samfylkingarinnar með mjög dularfullum hætti. (Gripið fram í.) Svona er þetta.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson vék að forminu. Hann sagði að röksemdir vantaði fyrir því af hverju þetta rekstrarform væri valið. Það er alls ekki ekki aðalatriði málsins. Rekstraraðilarnir sjálfir verða að fá að ákveða með hvaða hætti þeir haga rekstri sínum. Ef þeir fengju ekki að ráða því gætum við bara sleppt þessu, þá gæti ríkið bara ráðið rekstrarforminu. Ef menn vilja að hlutirnir séu þannig (Forseti hringir.) eiga þeir að segja það. Við erum að fara með þennan skóla í einkarekstur (Forseti hringir.) og við gerum það á þeim forsendum sem við teljum réttar.