131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:07]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður gerði nokkuð að umræðuefni þau örfáu orð sem ég lét falla varðandi skólagjöld en sleppti því að í aðdraganda þess hafði ég sagt að í raun væri búið að koma á skólagjöldum við háskóla og að ég saknaði hinnar heildstæðu umræðu. Ég get svo sem endurtekið það fyrir hv. þingmann að ég útiloka ekki, vegna þess að ég vil skoða öll mál, að það geti verið hægt að tryggja jafnrétti til náms þrátt fyrir skólagjöld. Ég útiloka það að sjálfsögðu ekki. Þá nota ég hugtakið skólagjöld þannig að það nái yfir m.a. það sem hv. þingmaður væntanlega kallar skráningargjöld. Ég er alveg með það kristaltært að markmiðið verður þá að vera jafnrétti til náms en ekki það að skólar séu píndir í fjárþörf og þurfi þess vegna að sækja fé til nemenda sinna. Það er ekki umræða að mínu skapi.

Um rekstrarformið gerir hv. þm. nokkra umræðu og telur eðlilegt að þeir aðilar sem að þessu komi ráði því. Ég hlýt þá að draga þá ályktun af þessum orðum hv. þingmanns að það hafi verið krafa þeirra aðila sem voru í viðræðum við menntamálaráðuneytið að þetta form yrði valið. Því spyr ég enn og aftur eftir röksemdum þeirra sem hljóta að hafa komið fram í viðræðunum: Hvernig stendur á því að þeir vilja fara í þetta form? Nú eru a.m.k. þeir sem standa að Háskólanum í Reykjavík með sjálfseignarformið við þann skóla. Ég hef ekki heyrt frá þeim aðilum neitt um galla þess forms. Ég man ekki betur en að ég hafi jafnvel verið þar á ágætum fundum í þeim ágæta skóla þar sem menn meira að segja hældu þessu formi. Ég hlýt að velta fyrir mér hvað ráði þessu. Er það kannski það sem ég fjallaði um varðandi háskólaráðið? Eða er það það að þetta er, eins og hv. þingmaður orðaði það áðan ef ég man rétt, á einhvern hátt þægilegra form?