131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:11]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það liggur við að maður þurfi að bera af sér sakir þegar þessi ósköp eru á mann borin. Ef Heimdallur og Samband ungra sjálfstæðismanna hefur nálgast umræðu um skólagjöld á sama hátt og ég er það fagnaðarefni. Því miður er það ekki þannig, heldur er allt önnur hugsun að baki. Ég held að hv. þingmaður hafi lýst henni ágætlega áðan þegar hann lýsti því eins og að hann teldi að samningaviðræður ættu að fara fram milli ríkisvaldsins og einkaaðila ef um einkarekstur væri að ræða, þ.e. samningarnir færu bara þannig fram að þeir aðilar sem hefðu áhuga á að reka t.d. þennan nýja háskóla sem hér er verið að tala um lýstu bara — þyrftu jafnvel ekki að lýsa neitt, heldur bara taka við. Krafa ríkisins er þá engin. Ríkinu kemur þetta mál bara akkúrat ekkert við ef ég hef skilið hv. þingmann rétt. Það er ekkert skrýtið þótt þessar samningaviðræður hafi gengið ef engar kröfur eru gerðar til rekstraraðilanna af hálfu ríkisins.

Við hljótum hins vegar að gera þá kröfu að það sé örugglega verið að reka alvöruháskóla. Það hlýtur menntamálanefnd að þurfa að fara yfir lið fyrir lið, hvort ekki sé örugglega tryggt að þarna eigi að reka alvöruháskóla. Það er algjört lykilatriði. Við getum ekkert verið að gengisfella nám hér á okkar landi í hinni alþjóðlegu samkeppni. Ég trúi því ekki að það sé markmið eins eða neins sem kemur að þessu máli, hvorki hér í þingsölum né í menntamálanefnd. Það hlýtur að verða að fara algjörlega yfir það og þá verður að tryggja að hið akademíska frelsi sé til staðar hjá starfsfólki skólans. Það getur ekki verið algjörlega undir hælnum á rekstrarforsendum þeirra sem skólann eiga eins og formið er á þessu hlutafélagaformi sem þarna er boðað.

Frú forseti. Ég held að skólagjaldaumræðan sé svo stór að um hana þurfi að fara fram miklu vandaðri umræða en getur átt sér stað í stuttum andsvörum. Hér er um grundvallaratriði að ræða. Ég get endurtekið það sem ég sagði áðan — það á ekki að troða þessum gjöldum bakdyramegin inn í skólana. Ég stend við það fyllilega sem ég sagði áðan að skrásetningargjöldin í opinberu háskólunum eru ekkert annað en skólagjöld. Ég veit ekki hvernig hv. þingmaður (Forseti hringir.) getur komið þeim fyrir annars staðar ef við förum í lagaskýringar og skoðum það t.d. út frá því hvernig þetta er fært í fjárlögunum.