131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:34]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það sem hér er að gerast er í grunninn að einn af opinberu háskólunum í landinu, Tækniháskóli Íslands, er færður Háskóla Reykjavíkur eða eigendum Háskóla Reykjavíkur að gjöf. Ég hef ekki heyrt hæstv. menntamálaráðherra mótmæla því enda væri það til lítils. Það er sjálft eðli málsins og ber að ræða það þannig.

Nú er ekki endilega bannað eða slæmt að taka einhverjar eigur ríkisins og afhenda öðrum í samfélaginu með meðgjöf eða gegn gjaldi en þegar það er gert við háskóla þá verður að athuga málið mjög gaumgæfilega, sérstaklega þegar um er að ræða opinberan skóla án skólagjalda á tilteknu fagsviði sem enginn annar skóli í landinu hefur upp á að bjóða. Tækniháskólinn er felldur inn í einkaskóla, þar er ekki um sjálfseignarstofnun að ræða, þar sem tekin eru skólagjöld samkvæmt yfirlýsingu sem hæstv. menntamálaráðherra skrifar sjálf undir. Staðan gagnvart þeim sem vilja stunda nám í þessum skóla er því sú að þeir þurfa að borga skólagjöld í skóla sem stjórnað er í samræmi við stjórnarhætti einkahlutafélags í staðinn fyrir að borga ekki skólagjöld í opinberum skóla þar sem þeir geta sótt sinn rétt og gert þær kröfur sem tíðkast í þeirri gerð af skólum.

Við þetta skapast strax þær aðstæður að maður hefði ætlað að ráðherra sem í þetta réðist, sem fengi slíka hugmynd, teldi sig þurfa að vinna henni fylgi, ekki eingöngu hjá þeim skólum sem um ræðir og nemendum þeirra og kennurum heldur líka hjá landsmönnum öllum, foreldrum og væntanlegum foreldrum. Maður hefði ekki síður talið nauðsynlegt að reyna að skapa um málið pólitíska samstöðu á þinginu.

Út frá orðum síðasta háttvirts ræðumanns virðist samstaða vera að skapast meðal stjórnarflokkanna, með einhverjum hætti, sem gengur þvert á yfirlýsta stefnu annars þeirra um það að ekki skuli vera skólagjöld í opinberum skólum. Að því er að vísu farin fjallabaksleið sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lýsti.

Háskólar eru taldir öðruvísi skólar en aðrir skólar. Þeir heita universitas á latínu og það orð er líka notað afleitt í nýtungunum. Skólastarf í háskólum gerir meiri kröfur um frelsi en starf í annars konar menntastofnunum. Segja mætti að um sé að ræða þríþætt frelsi.

Í fyrsta lagi er um að ræða akademískt frelsi sem er háskólum algjörlega bráðnauðsynlegt. Þeir geta ekki án þess verið. Ef þeir hafa ekki akademískt frelsi þá verðskulda þeir ekki nafnið háskóli. Þá verðskulda þeir ekki að standa undir því að vera sú menntastöð sem veitir fram gömlum menntum og menningu um leið og nýjar verða til í skurðpunkti rannsakandi frjálsra fræðimanna og þess samtíma sem þeir vinna í og þeirrar stöðu sem fræðin eru í á hverjum tíma gagnvart viðfangsefnum sínum.

Skólar verða líka, ef þeir eiga að teljast háskólar, að búa við eins mikið fjárhagslegt frelsi og unnt er. Jafnframt verða þeir að búa við stjórnunarlegt frelsi. Þetta þríþætta frelsi þarf að fara saman.

Gera verður ráð fyrir því að ákveðin skil séu á milli þeirra sem annast hvern þessara þátta. Að háskóla þarf að vera þannig búið að hver þeirra fái að njóta sín. Þegar þetta er sagt þá verður líka að segja að þótt opinberir háskólar hafi sinnt hlutverki sínu, bæði hér á Íslandi og víða annars staðar, af mikilli prýði, þá er ekki víst að ríkisháskóli sé í sjálfu sér einstök fyrirmynd í þessum efnum. Þar ræður miklu hvernig að slíkum háskóla er búið, hver afstaða ríkisvaldsins er til hans. Stundum hefur ríkisvaldið ekki veitt háskólum í þess eigu nægilegt fjárhagslegt frelsi. Um það höfum við rætt í tengslum við okkar ríkisháskóla. Stundum er ekki nægilegt stjórnunarlegt frelsi í ríkisháskólum vegna þess að ríkisstjórn og stjórnvöld skipta sér af hlutum sem þau eiga ekki að gera í háskólum og grípa inn í eðlilegt frelsi háskólanna til þess að stjórna sér sjálfir. Þetta leiðir oft til þess að hið akademíska frelsi er skert í skólum þar sem stjórnvöld kunna sér ekki hóf og vita ekki hvernig þau eiga að haga sér gagnvart háskólum.

Margir eru því þeirrar skoðunar að háskólar séu best settir sem einhvers konar sjálfseignarstofnanir, ef ekki með formlegum hætti þá a.m.k. þannig að tryggilega sé frá því gengið að ríkisvaldið eða aðrir opinberir eigendur veiti þeim frelsi, að sá skilningur ríki þar á milli að ríkisvaldið veiti þeim slíkt frelsi. Þess vegna er ekki endilega slæmt að breyta um rekstrarform á ríkisháskóla að þessu leyti og gera háskóla að sjálfstæðu fyrirbæri. En það að taka ríkisháskóla og breyta honum í einkaskóla getur verið að fara úr öskunni í eldinn í þessu efni. Að velja hlutafélagaform á universitas er hugmynd sem enginn hefur fengið fyrr en hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir virðist hafa látið sér detta það í hug einhvern tímann í lok fyrra árs. Hlutafélagsformið sjálft, hvort sem það heitir hf. eða ehf., gerir ráð fyrir markaðsrekstri og stjórn í samræmi við hagnaðarvon. Það er ósköp einfaldlega ekki það umhverfi sem háskóli þrífst í þótt aðrar menntastofnanir geti vissulega gert það.

Þetta eru því ekki eingöngu einhverjar pælingar úr miðöldum, þegar háskólar unnu sér einhvers konar sjálfstæði frá samfélaginu í kringum sig. Þeir fengu að gera það vegna þess að þeim sem tókst það best í Evrópu miðalda urðu að mestu gagni fyrir samfélagið. Þetta á auðvitað líka við í nútímasamfélagi, hið akademíska frelsi er ákaflega nauðsynlegt fyrir okkur í nútímasamfélagi. Það fer nefnilega svo að ef stjórnunaráráttan er of mikil, ef samstilling fræðanna og einhvers konar þarfa sem samfélagið skilgreinir hjá sér er of stíf hverfur andinn úr skólunum og gagnsemi þeirra fyrir langtímahagsmuni samfélagsins minnkar.

Þegar fjallað er um háskóla er mikilvægt að það séu ekki skammtímasjónarmið sem ráða, hvorki þau sem stjórnvöldum geta dottið í hug, að skipuleggja fjölda útskrifaðra námsmanna í einhverri grein samkvæmt einhverjum formúlum, eins og ég hygg að stundað hafi verið í Sovétveldinu, né það skammtímasjónarmið sem fulltrúar atvinnulífsins túlka oft þannig að á næstunni þurfi að útskrifa, svipað og í Sovét, þetta marga á þessu sviði og þetta marga á hinu sviðinu. Sem betur fer, þrátt fyrir spádóma og áætlanir, þá vitum við ekki hvað gerist í samfélaginu. Við vitum ekki hvað gerist í fræðunum heldur.

Mig langar að nefna eitt dæmi um það vegna þess að menn tala stundum um óhagnýtar greinar og hagnýtar greinar. Nú hefur t.d. lögfræði verið talin ákaflega hagnýt grein og viðskiptafræði núna undanfarin 10–20 ár, hvað sem verður nú í framtíðinni. En það er nokkuð langt síðan málfræði hefur verið talin hagnýt grein. Það var svona nokkurn veginn á miðöldum þegar hún nýttist vel til að lesa Nýja og Gamla testamentið og síðan á renessans-tímanum til þess að eiga við gríska og latneska texta. Síðan höfum við svona meira hugsað um málfræði og málfræðinga sem einhverja rykfallna grein þar sem standa menn með slaufur og rýna í kringilyrði. Þó hafa málfræðingar hafist til vegs og virðingar á síðustu árum og málfræði er með ýmsum hætti orðin nútímalegri grein en margar þær sem hún hefur fætt af sér og í kringum hana standa vegna þess að upp er runnin tölvuöld þar sem málfræði hins daglega tungumáls manna, hin sígilda, er í raun orðin systir þess máls sem tölvurnar tala. Það má vera okkur til kenningar í þessu efni að nýverið lauk, því miður — þ.e. að því lauk, það á að halda áfram — en nýverið lauk ákveðnu tímabili hér sem menntamálaráðuneytið á heiður skilinn fyrir og menntamálaráðherrar, sérstaklega hæstv. núverandi dómsmálaráðherra sem ég hélt að ég mundi seint sakna úr stóli menntamálaráðherra. Hann á heiður skilinn fyrir að hafa staðið að þeirri samtengingu málfræði og málfræðinga við tölvuheiminn og sem hefur gengið undir nafninu tungutækni eða máltækni.

Þetta gat enginn séð fyrir og þetta varð ekki nema vegna þess, bæði hér og sérstaklega þar sem þetta spratt upp erlendis, að sjálfstæðir og frjálsir fræðimenn tóku saman höndum og tengdust auðvitað atvinnulífinu á þann hátt sem til fyrirmyndar er.

Ekki er nóg með að sá skóli sem við erum að fjalla um, hinn nýi háskóli úr Háskólanum í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands, eigi að vera einkahlutafélag heldur á stjórn einkahlutafélagsins jafnframt að vera háskólaráð. Það er, held ég, fáheyrt að þessu sé skipað með þessum hætti. Í engum öðrum skóla hérlendis er þetta svona. Ég aflaði mér upplýsinga um skipan stjórnar Viðskiptaháskólans í Bifröst og þar er þetta með allt öðrum hætti. Þar er það þannig og er sagt vera — kannski ekki stæling frá Ameríku en mjög í samræmi við stjórnarskipun í amerískum skólum, að þar sitja fimm í stjórn. Einn er skipaður af ráðherra. Tveir eru fengnir úr atvinnulífinu og tveir eru ættaðir úr skólanum sjálfum. Einn er frá gömlum nemendum, sem þessi skóli á reyndar fleiri en margir aðrir og kannski tryggari en margir aðrir líka, og annan skipa starfsmenn og nemendur í sameiningu. Hér er því málum fyrir komið allt öðruvísi en til stendur í hinum nýja skóla Verslunarráðs Íslands og fleiri samtaka.

Það er sorglegt að menn skuli hafa kórónað þetta svona því að það vekur strax tortryggni sem á að vera óþörf að háskólaráðið skuli jafnframt vera þessi stjórn, að starfsmenn skuli ekki eiga neina aðild að henni, að námsmenn skuli vera fullkomlega áhrifalausir í hinu nýja háskólaráði. Maður spyr sig hvort skóli atvinnulífsins eigi með þeim hætti að vera skipulagður eftir þörfum atvinnulífsins úr því að þessir fulltrúar atvinnulífsins sem sitja í þessari stjórn, sjálfsagt ágætt fólk, eiga að vera einráðir líka á hinu faglega sviði sem háskólaráð, ekki aðeins á stjórnunarsviðinu og á fjárhagssviðinu heldur líka á hinu faglega sviði, eiga að stjórna þessari akademíu þvert á lögmálið, að ég kalla, um hið þríþætta frelsi háskólanna.

Enn verður að rekja þráð í þessu máli. Hafa þó margir verið raktir hingað til í þessari umræðu og ég sé að margir eru á mælendaskránni þannig að ekki þarf nú að gína yfir öllu. Við sameiningu Háskólans í Reykjavík og Tækniháskólans verður til nokkuð breiður háskóli. Það er sem sé meiningin og það er út af fyrir sig ágæt hugmynd að setja upp slíkan breiðan háskóla sem veldur því að Tækniháskólinn eða hlutur Tækniháskólans verður kannski kjarninn í þeim háskóla. Ég geri ráð fyrir að það verði þannig með fullri virðingu fyrir Háskólanum í Reykjavík. Háskólinn í Reykjavík býr yfir tiltölulega fáum greinum og er kannski háðari stöðunni á „markaði“ en Tækniháskólinn. En það er sem sé stefnan að þessi skóli verði breiður skóli og verði sem sé við hliðina á eða móti Háskóla Íslands með einhverjum hætti.

Kannski er það ágætt. Ég ætla a.m.k. ekki að leggjast gegn því að svo verði. Hins vegar verðum við í því tilliti að spyrja hver sé áætluð verkaskipting milli þessara skóla. Er t.d. í ráði að rannsóknarsamningar við þessa skóla verði hliðstæðir? Maður spyr vegna þess að staða þeirra er ekki hliðstæð að neinu öðru leyti. Að minnsta kosti samkvæmt því sem hæstv. menntamálaráðherra segir nú á annar háskólinn að innheimta skólagjöld. Óvíst er hvað það er mikið. En má ekki gera ráð fyrir að það verði eitthvað svipað og Háskólinn í Reykjavík innheimtir núna, þ.e. svona 300 þús. kr. skilst mér, svona nokkurn veginn, eitthvað mismunandi eftir deildum kannski, sem mundi vera svona um helmingur af raunkostnaði í skólanum?

Hinn háskólinn á ekki að innheimta nein skólagjöld nema hin frægu skrásetningargjöld sem ég nenni nú ekki að gera að umræðu hér því að ég á eftir að ræða mikið um það við 2. umr. um það mál á næstu dögum. Þetta skapar þá stöðu milli þessara skóla að óþolandi er eða lítt þolandi fyrir Háskóla Íslands.

Önnur spurning vaknar um það hvað Háskóli Íslands eigi að fá, hvernig eigi að bæta honum það upp að honum er ætlað að halda uppi ýmsum fræðum sem við teljum nauðsynlegt að kenna í landinu og halda uppi rannsóknum í, en sem eru hins vegar fámenn og óhagkvæm eining í skólakerfinu. Hér hefur Tækniháskóli Íslands – Háskólinn í Reykjavík, eða hvað sem þetta nú heitir, gríðarlegt forskot sem menntamálaráðherra hefur enn ekki skýrt hvernig hún ætlar að bregðast við. Vegna þess að lítill tími er eftir þá verðum við að fá að vita það betur hver staðan er gagnvart skólagjöldunum, hvað hæstv. menntamálaráðherra ætlar sér í skólagjöldum í hinum nýja skóla því ekki er sæmandi að þessi gjöf sem hér er lögð til fari fram án þess að við vitum nokkuð nákvæmlega hvernig hinn nýi skóli á að vera og hvernig hann ætlar að hegða sér. Það er alveg ljóst að þar verða skólagjöld. Það stendur í yfirlýsingu aðstandenda hins nýja skóla og hæstvirts menntamálaráðherra sem þó hefur lýst því yfir að ekki eigi að vera skólagjöld í hinum opinberu skólum. Þetta verður hún að skýra betur fyrir okkur auk ýmissa annarra spurninga sem fram hafa komið í umræðunni og væntanlega eiga eftir að koma fram í þessu mikla og flókna máli sem ég sé ekki að hægt verði að afgreiða hér fyrr en einhvern tíma á vormánuðum, forseti góður.