131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:54]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Mig langar til að eyða nokkrum orðum í það frumvarp og það mál sem hér er til umfjöllunar, þ.e. frumvarp um afnám laga um Tækniháskóla Íslands. Ég verð að segja það til að byrja með að umræðan hefur verið afar athyglisverð og að hluta til hafa menn fjallað um efnisatriði málsins. Þó verð ég ekki síður að minnast á að í þingsalnum hafa átt sér stað nokkuð sérstakir atburðir. Við höfum orðið vitni að miklum pólitískum tíðindum, sérstaklega varðandi stefnu Samfylkingarinnar til innheimtu skólagjalda.

Ég vík að því og stefnu Samfylkingarinnar almennt í menntamálum seinna í ræðu minni. Ég geri ráð fyrir að þeir hv. þingmenn Samfylkingarinnar sem hér eru muni þá bregðast við og svara þeim spurningum sem ég hef fram að færa um þau atriði. Ég verð að segja að mér finnst verra að hv. þingmenn Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Bryndís Hlöðversdóttir séu ekki í salnum. Það væri óskandi ef þær ættu kost á því að koma hingað til að svara þeim sjónarmiðum sem ég mun víkja að á eftir.

Til að byrja með verð ég að segja að mér finnst það mál sem hér er til umfjöllunar einstaklega gott. Það mun að mínu mati fyrirsjáanlega styrkja mjög þær menntastofnanir sem í hlut eiga, þ.e. Háskólann í Reykjavík og Tækniháskólann. Þessar tvær stofnanir sameinaðar verða mun sterkari sem slíkar en sem tvær stofnanir. Úr verður að mínu mati mjög öflugur háskóli, mjög öflug menntastofnun sem mun nýtast nemendum og þjóðfélaginu einkar vel í framtíðinni.

Ég lít þannig á, og það er skoðun mín, að kostir þessarar sameiningar séu augljósir. Þeir eru reyndar býsna margir. Ég ætla að víkja að nokkrum þeirra hér. Það er alveg ljóst að samkeppni milli háskóla er mjög af hinu góða. Við höfum séð það eftir að fleiri háskólar hafa verið stofnaðir að gæði menntunar hafa aukist mjög mikið og með því að sameina þessa tvo skóla, þ.e. Háskólann í Reykjavík og Tækniháskólann, er fyrir séð að samkeppni muni aukast mjög verulega milli stofnananna, þ.e. Háskóla Íslands og hins nýja sameinaða skóla. Ég tel að það sé vel. Ég tel reyndar að reynslan hafi kennt okkur að svo muni verða. Mér nægir t.d. að nefna mína gömlu deild, lagadeild Háskóla Íslands, sem ég nam við ekki alls fyrir löngu, þ.e. á árunum 1993–1998. Frá þeim tíma er búið að stofna þrjár aðrar lagadeildir í landinu og ekki verður annað séð en að það laganám sem boðið er upp á í dag sé miklu betra, efnisríkara og — hvað á ég að segja — kröfuharðara en þegar ég var í námi. Valfrelsi hefur aukist og kostir þeir sem stúdentum standa til boða eru miklu fleiri, fjölbreyttari og að mínu mati merkilegri. Ég tel því að reynslan hafi kennt okkur að samkeppni milli háskóla og háskóladeilda sé af hinu góða og með því að sameina þessa tvo skóla og efla þar með samkeppni þá stígum við mjög mikilvægt skref í að bæta hér menntakerfið á háskólastigi.

Í annan stað verð ég að segja að hinn nýi skóli mun líklega auka aðgang ungs fólks á tæknimenntun, hvort sem um er að ræða verkfræðinám eða aðrar tæknigreinar. Eins og hér hefur komið fram má ætla að slík framþróun muni styrkja samkeppnishæfni atvinnulífsins og gera okkur einfaldlega hæfari til að sinna þeim verkum sem nauðsynlegt er að sinna. Ég minnist þess að hafa sem fulltrúi í menntamálanefnd heimsótt Háskólann í Reykjavík, held ég, þrisvar síðasta vetur þar sem fram kom hjá rektor þess skóla, Guðfinnu Bjarnadóttur, mikilvægi þess og nauðsyn fyrir íslenskt þjóðfélag að útskrifa fleiri einstaklinga með tækni- og verkfræðimenntun vegna þess að það væri alveg segin saga að slíkt mundi leiða til góðs fyrir íslenskt atvinnulíf.

Ég minnist þess að í ræðum sínum hafi Guðfinna Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, nefnt sérstaklega þá stefnu sem Finnar hafa framfylgt í menntamálum sínum á síðustu árum og áratugum. Þeir hafa lagt mikla áherslu á að tækni- og verkfræðinám skipi mikinn sess í menntakerfi þeirra sem hefur leitt til mikillar framþróunar í atvinnulífinu sem við öll þekkjum. Finnar eru, eins og heimurinn veit, einna fremst staðsettir á sviði tæknimála í heiminum. Við Íslendingar höfum hins vegar verið aftarlega á merinni í þessum málaflokkum og ekki útskrifað hlutfallslega jafnmarga tækni- og verkfræðimenntaða stúdenta eins og t.d. Finnar. Það er einmitt vegna þess að ekki hafa verið nægilega margar háskólastofnanir sem hafa sinnt þessu sviði.

Þá er að nefna að efling náms í tækni- og verkfræði við nýjan háskóla mun efla enn frekar nám í verkfræðideild Háskóla Íslands sem er vel. Samkeppnin er öllum góð, þar á meðal verkfræðideildinni við Háskóla Íslands. Það er rétt að vísa til stefnu vísinda- og tækniráðs um eflingu slíks náms. Sú efling þarf að vera víðari en í hinum nýja skóla enda dugir hún ekki til. Til að markmið vísinda- og tækniráðs nái fram að ganga þurfa stjórnvöld að styðja enn frekar við verk- og raungreinar í HÍ. Þetta er bara hluti af öllum pakkanum.

Síðan í fjórða lagi er náttúrlega sérstakt ánægjuefni fyrir mann eins og mig sem er þeirrar skoðunar að við eigum að minnka umsvif ríkisins sem mest við megum að með þessu frumvarpi liggur fyrir að ríkisstofnunum fækkar um eina. Er það í sjálfu sér sérstakt ánægjuefni.

Virðulegi forseti. Það hefur verið komið inn á rekstrarform hins nýja skóla í umræðunni og hafa einkum hv. þm. Samfylkingarinnar gagnrýnt að hinn nýi skóli muni verða starfræktur á grundvelli einkahlutafélags en ekki sjálfseignarstofnunar. Menn hafa spurt sig hvers vegna svo sé og óskað eftir svörum frá menntamálaráðherra. Ég hef hins vegar sagt að meginatriði málsins sé ákvörðun um að einkaaðilar taki við rekstri þessa skóla en ekki á hvaða formi sá rekstur fer fram. Ég tel reyndar að á þessu tvennu, þ.e. sjálfseignarstofnunarforminu og einkahlutafélagsforminu, sé í sjálfu sér stigsmunur en ekki neinn eðlismunur. Ég tel að þegar tekin hefur verið ákvörðun um það að fela einkaaðilum þennan rekstur eigi ríkisvaldið ekki að ákveða á hvaða formi hann sé. Ég nefndi hér í andsvari að ég teldi — við fáum væntanlega tækifæri í menntamálanefndinni til að spyrja hina nýju stjórnendur skólans hvers vegna þeir völdu þetta félagsform en ekki eitthvert annað, og fáum skýringar frá þeim — að sú leið hljóti að hafa verið valin vegna þess að það rekstrarform er einfaldlega miklu hentugra og þægilegra, hvort sem um er að ræða rekstur menntastofnunar eða annarrar stofnunar.

Það má t.d. nefna að eftir því sem ég best veit gilda engin heildarlög um sjálfseignarstofnanir. Það er ýmislegt líkt með sjálfseignarstofnunum og einkahlutafélögum eins og Björn Þ. Guðmundsson, prófessor í lögum, sagði á sínum tíma í bók sinni Lögbókin mín, þar sem hann skilgreinir sjálfseignarstofnanir, með leyfi forseta, „að sjálfseignarstofnun geti líka starfað í atvinnurekstri og getur þá starfsemin fallið undir hlutafélagalög“. Sjálfseignarstofnun verður að hafa einhvers konar stjórn og fer hún að jafnaði með æðsta vald í málefnum sjálfseignarstofnunarinnar. Venjulega hefur enginn eftirlit með gerðum stjórnarinnar, hvorki stofnandi né annar hefur þar neitt að segja nema sérstök heimild sé til þess. Þetta er kannski ástæðan fyrir því að menn velja ekki sjálfseignarstofnunarformið, þ.e. í slíkum stofnunum er alveg undir hælinn lagt hvort stjórnin er háð endurskoðun einhverra æðri stjórnenda. Í hlutafélögum starfar stjórn einfaldlega í umboði hluthafa sinna og þeir hafa þá eftirlit með störfum stjórnarinnar.

Við fáum svör við þessu öllu þegar hv. menntamálanefnd fær tækifæri til að ræða við þá aðila sem að þessum rekstri munu koma.

Hér hafa menn líka nefnt skólagjöld. Ég minnist þess að Samfylkingin hafi fyrir síðustu kosningar lýst því yfir að hún væri algjörlega mótfallin töku skólagjalda á háskólastigi. Ég minnist þess líka að hafa rætt þessi mál á fundum hér og þar, m.a. við hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson sem er ekki hér, m.a. uppi í háskóla. Það var alveg ljóst að Samfylkingin var á þeirri skoðun að taka skólagjalda væri af hinu slæma. Í þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað hafa hins vegar þau stórpólitísku tíðindi gerst að hv. þm. Einar Már Sigurðarson, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur lýst því yfir að hann útilokaði alls ekki töku skólagjalda á háskólastigi. Þetta er nokkuð sem margir af þingmönnum Samfylkingarinnar hafa tekið fyrir, bæði fyrr og síðar, en í þessu felast náttúrlega stórpólitísk tíðindi. Það verður ekki annað sagt en að þessi talsmaður Samfylkingarinnar í fjármálum, sérstaklega í fjármálum ríkisins — þetta er enginn símastrákur á vegum Samfylkingarinnar, heldur lykiltalsmaður Samfylkingarinnar í fjár- og efnahagsmálum. Hann lýsir því hér yfir fullt og fast að hann útiloki alls ekki töku skólagjalda af sinni hálfu.

Ég fór að grafast fyrir um það hvernig Samfylkingin hefði haldið á málum sínum í skólagjaldaumræðunni, fór að skoða stefnu Samfylkingarinnar varðandi rekstrarform í almannaþjónustu og þá komst ég að því að ekki alls fyrir löngu var skipaður framtíðarhópur á vegum Samfylkingarinnar. Það voru svo sem engar smákanónur sem skipa kjarnahóp þess framtíðarhóps, þ.e. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem er varaformaður Samfylkingarinnar og svo fjórar aðrar silkihúfur Samfylkingarinnar, þ.e. Kristrún Heimisdóttir, Svanfríður Jónasdóttir, fyrrverandi alþingismaður, Sverrir Teitsson og Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar. Þetta ágæta fólk tók að sér að búa til annan hóp sem fjallaði í nokkuð ítarlegu máli um rekstrarform í almannaþjónustu. Það vill svo skemmtilega til að í þeim hópi áttu sæti hv. þingmenn Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Bryndís Hlöðversdóttir sem hafa hingað til, eftir því sem ég best veit, ekki verið sérstaklega hlynntar töku skólagjalda og almennt einkarekstri í menntakerfinu.

Þessi ágæti hópur sendi frá sér svokallað umræðuplagg sem nálgast má nú á netinu. Það er sama hvaðan gott kemur en eftir lestur þessa plaggs verð ég að segja að það kom mér verulega á óvart að Samfylkingin virðist hafa tekið upp stefnu Heimdallar í menntamálum, þ.e. hér lýsir Samfylkingin því yfir að mikilvægt sé að hefja einkarekstur bæði á grunnskólastigi, framhaldsskólastigi o.s.frv. Það er athyglisverður kafli í þessu umræðuplaggi sem fjallar um opinberan rekstur og önnur rekstrarform á háskólastigi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Telur Samfylkingin að ekkert sé því til fyrirstöðu að skoða í fullri alvöru að Íslendingar fari sömu leið og Danir hvað varðar rekstur þeirra háskóla sem nú eru reknir af hinu opinbera, að þeir verði gerðir að sjálfseignarstofnunum.“ — Eins og ég sagði áðan er í sjálfu sér enginn eðlismunur heldur bara stigsmunur á því hvort reksturinn fari fram á sjálfseignarformi eða einkahlutafélagsformi. Það eru í sjálfu sér ánægjuleg tíðindi að slíkt komi fram frá Samfylkingunni, að hún sé tilbúin til að skoða ný, betri og fjölbreyttari rekstrarform hvað varðar háskólastigið. Þessi ágæti hópur bætir frekar í. Hann leggur mikið upp úr því að háskólarnir séu samkeppnishæfir og keppi innbyrðis um góða nemendur og fræðimenn, að samkeppni fari fram á Íslandi um nemendur og fræðimenn. Ég verð að hæla Samfylkingunni fyrir þessar áhugaverðu hugmyndir.

Síðan er kafli um skólagjöld. Þar koma fram þessi stórkostlegu pólitísku tíðindi sem hv. þingmenn Bryndís Hlöðversdóttir og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir standa að (Gripið fram í.) og skrifa undir og varða stefnu Samfylkingarinnar varðandi töku skólagjalda. Það segir reyndar að sérstaklega þurfi að gæta þess við töku skólagjalda að þau virki ekki sem efnahagsleg hindrun fyrir einstaklinga til að sækja sér menntun, það sé mikilvægt að Lánasjóður íslenskra námsmanna láni fyrir skólagjöldum. Þetta er algjörlega í samræmi við þann málflutning sem Samfylkingin hefur gagnrýnt svo hressilega af hálfu Heimdallar. Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, hefur nákvæmlega talað fyrir þessum hlutum en jafnframt lagt áherslu á að skólagjöld séu lánshæf.

Síðan segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Rannsókn sem framkvæmd var af fræðimönnum við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og birtist haustið 2004 sýnir fram á verulegan efnahagslegan einkaávinning af ákveðnu háskólanámi, sérstaklega lækna-, viðskipta- og hagfræðinámi, auk tækni- og verkfræðináms. Nemur einkaarðsemi af ofangreindu námi um og yfir 20%.“

Svo kemur:

„Skoða má hvort einstaklingar sem geta vænst slíks arðs af sínu námi greiði einhvern hluta þess kostnaðar sem af menntuninni hlýst, sérstaklega í ljósi þess að í rannsókn Hagfræðistofnunar HÍ er sýnt fram á að skólagjöld lækka arðsemi af námi einungis um 0,2–1,5%.“

Að lokum segir, með leyfi forseta:

„Mætti e.t.v. segja að óeðlilegt sé að skattgreiðendur beri allan kostnað af menntun einstaklinga sem geta vænst slíks einkaarðs af sínu námi.“

Það liggur fyrir að Samfylkingin hefur tekið undir með m.a. málflutningi þeim sem komið hefur fram úr röðum Heimdallar, málflutningi sem Samfylkingin hefur fram að þessu skammast yfir. Mig langar að nota tækifærið hér í þessari ræðu minni til að óska Samfylkingunni innilega til hamingju með þá miklu stefnubreytingu sem hefur orðið hvað varðar stefnu hennar til töku skólagjalda á háskólastigi. Sú stefna lýsir frjórri hugsun og ákveðnum nýjungum í hugmyndafræði hennar. Það verður gaman að sjá hvernig þingmenn Samfylkingarinnar fylgja þessari stefnu sinni eftir þegar við á hinu háa Alþingi munum fjalla um mál sem þau hafa talið að varði skólagjöld en gera hins vegar að mínu mati ekki.

Þetta eru hin stóru pólitísku tíðindi í umræðunni sem hér hefur átt sér stað. Samfylkingin styður töku skólagjalda á háskólastigi. Þetta er það merkilega og það sem stendur upp úr í þessari umræðu. Í lok ræðu minnar vil ég lýsa því yfir að það mál sem að öðru leyti er hér til umfjöllunar er mikið framfaramál og mig langar til að óska hæstv. menntamálaráðherra innilega til hamingju með það.