131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:25]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við hv. þm. Einar Már Sigurðarson séum sammála um mörg meginatriði málsins sem skipta miklu máli, eins og að tryggja jafnrétti til náms. Við sjálfstæðismenn höfum aldrei haft aðra stefnu en að tryggja að það jafnrétti sé ekki skert. En mér finnst ansi ódýrt að koma hingað upp á handahlaupum undan stefnu Samfylkingarinnar í menntamálum og kalla hana vinnuplögg.

Ég er með útskrift af heimasíðunni www.framtid.is, sem er heimasíða framtíðarhópsins. Þar segir um markmið hópsins, með leyfi forseta:

„Markmið framtíðarhópsins er í senn að innleiða ný vinnubrögð í íslenskum stjórnmálum og að móta tillögur að heildstæðri stefnu fyrir Samfylkinguna byggðar á grundvallarstefnu flokksins.“

Eins og ég fór yfir í ræðu minni eru það engir símastrákar sem skrifa undir þetta plagg um rekstrarform í almannaþjónustu. Það þýðir ekki að skýla sér á bak við það. Það eru hvorki meira né minna en tveir hv. þingmenn Samfylkingarinnar, Ásta R. Jóhannesdóttir og Bryndís Hlöðversdóttir, sem fjalla um að rétt sé að taka skólagjöld á háskólastigi á Íslandi. Svo kallar hv. þingmaður plaggið vinnuplagg. Hér segir einfaldlega að þetta séu tillögur byggðar á grundvallarstefnu flokksins. Ég geri alla vega ráð fyrir því fyrir fram að þessir tveir hv. þingmenn Samfylkingarinnar leggi ekki fram tillögur sem ganga algerlega í berhögg við stefnu flokksins. Allt sem fram hefur komið í málinu liggur því fyrir. Það virðist vera í samræmi við stefnu Samfylkingarinnar og er stefna Samfylkingarinnar að taka skólagjöld í háskólum.