131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:43]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem fram hefur farið til þessa, en það er þó nokkuð eftir. Engu að síður hafa komið upp margar spurningar sem ég tel rétt að reyna að svara á þessu stigi, en ég sé á mælendaskránni að þó nokkrir eru eftir og eflaust koma þá upp fleiri spurningar.

Meginástæðan fyrir sameiningu háskólanna er að auka og efla tækni- og verkfræðinám, auka samkeppni í náminu og ekki síst er þetta gert með þátttöku og dyggum stuðningi atvinnulífsins. Þetta er það sem m.a. atvinnulífið vill og það skiptir okkur máli þegar við tölum um þetta gríðarlega merkilega og stóra mál.

Mér finnst hins vegar miður að enginn af þeim hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem hafa komið upp í þennan ræðustól í dag hefur virkilega tekið undir þetta gríðarlega þýðingarmikla skref í háskólamálum sem við stígum með því að samþykkja frumvarpið.

Það er nokkuð sérstakt að fá það í rauninni skjalfest að þingmenn stjórnarandstöðunnar séu a.m.k. ekki hlynntir — fari ég rangt með verður að leiðrétta mig hér á eftir — þeim stórstígu framförum sem við erum að ræða hér um með því að sameina þessa háskóla, Tækniháskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Finnst mér það miður og það er frekar verið að reyna að gera þessa sameiningu tortryggilega. Á dauða mínum átti ég von en ekki þessu.

Menn hafa verið að ræða um eitt og annað. Hér hafa verið settar fram spurningar um m.a. það af hverju þessi sameining hafi orðið ofan á, af hverju ekki hafi verið reynt að leita annarra leiða. Auðvitað skoðuðum við ýmsar leiðir. Það hefur verið gert í gegnum tíðina og það er ekki hægt að tala um neina U-beygju í þessum málum eins og einn hv. þingmaður kom inn á. Lengi hafa verið athugaðir kostir þess að sameina eða fela Tækniháskólann öðrum rekstraraðilum, hvort tveggja á undanförnum árum. Það hefur ekki tekist. Því varð á sínum tíma tímans vegna að setja lögin um Tækniháskóla Íslands. Það var nauðsyn sem knúði okkur til að setja þá rammalöggjöf en það varð ekki til þess að við legðum árar í bát varðandi það að reyna að skoða kosti þess að sameina öðrum þennan góða háskóla sem er búið að vera að byggja upp undir dyggri forustu Stefaníu Karlsdóttur á undanförnum árum.

Menn hafa nefnt hér Bifröst. Gott og vel. Það er frábær skóli sem hefur verið í miklum vexti, örum vexti og hefur mikla sérstöðu meðal háskóla hér á landi. Hann hefur skapað sér þessa sérstöðu á markvissan hátt undir forustu Runólfs Ágústssonar rektors þar. Ég hef rætt við hann um m.a. hugsanlegar sameiningar og það er ekki beint uppi á borðum á þeim bænum, a.m.k. ekki að sinni. Þeir vilja frekar halda áfram að stuðla að sérstöðu sinni. Það er vel og ég tek heils hugar undir það. Okkur ber skylda til þess að huga að því hvernig hægt er að efla þann góða skóla.

Það hefur líka verið rætt af hverju Tækniháskólinn hafi ekki verið sameinaður verkfræðideild Háskóla Íslands. Það var á sínum tíma kannað. Það hefur komið skýrt fram, m.a. í viðtali við Stefaníu Karlsdóttur, rektor Tækniháskólans, þar sem hún sér skýrt og greinilega tækifærin sem felast í því að breyta um rekstrarform, að fara ekki ríkisháskólaleiðina og fara upp í Háskóla Íslands, heldur segir hún hreint og klárt í viðtali við Morgunblaðið á sínum tíma að hún sjái tækifæri felast í nýju og breyttu rekstrarformi, tækifæri sem koma til með að stuðla að því að styrkja það nám sem nú þegar stendur nemendum til boða í Tækniháskóla Íslands. Það er fyrst og fremst vegna hagsmuna tæknimenntunarinnar sem forsvarsmenn Tækniháskólans fara í þessa sameiningu með okkur, sjá það tækifæri sem blasir við þeim til að efla þennan nýja skóla, efla tækninámið með því að fara þá leið sem við erum að fara hér.

Menntafélagið ehf. sem nú rekur Stýrimannaskólann með afar myndarlegum og jákvæðum hætti — það er nú þegar kominn jákvæður árangur og skemmtilegt að fylgjast með þeirri þróun sem er að gerast innan Menntafélagsins og Stýrimannaskólans — er einkahlutafélag en það er rétt sem hefur komið fram hér að það er ekki á háskólasviði. Það er ekki þar með sagt að ekki sé rétt að skoða þessa rekstrarleið og þetta rekstrarform. Að sjálfsögðu er það heimilað í lögum um Háskóla Íslands að menntamálaráðherra geti veitt einkaaðilum heimild til að reka háskóla. Ef hagsmunaaðilar hins nýja skóla meta það þannig að það sé betra og hagkvæmara að fara einkahlutafélagsleiðina viðurkenni ég það, tek undir þá leið með þeim og met það svo að þeir fari fyrst og fremst þá leið með hagsmuni skólans í huga.

Það var sérstaklega tekið fram í viljayfirlýsingu ráðuneytisins 19. október að einkahlutafélagið verður ekki rekið í hagnaðarskyni fyrir eigendur félagsins heldur verður hagnaður, ef hann kann að myndast, fyrst og fremst settur inn í skólastarfið og það eflt enn frekar, enda verðum við líka að hugsa þessa háskólaumræðu alveg upp á nýtt. Við verðum að sjá hvað við erum að gera með þessari samkeppni í háskólasamfélaginu. Það er verið að bítast um nemendur og að sjálfsögðu mun skóli með þessu rekstrarformi sjá hag sinn mikið í því að hlúa sem mest og best að hinu akademíska umhverfi og akademíska frelsi. Þeir vilja jú byggja upp öflugan háskóla og að nemendur sæki í það nám sem hann hefur fram að færa. Svo einfalt er það.

Menn vilja í þessum skóla sem öðrum háskólum landsins vera með aðlaðandi umhverfi, fjölbreytt nám, gæðanám, góða kennslu, góða kennara og prófessora, sem laða til sín nemendur. Um það snýst þetta í samkeppnisumhverfi á háskólasviðinu, að hafa umhverfi og háskólana þannig að það laði að hæfileikaríkt fólk sem hefur metnað til að byggja upp öfluga háskóla.

Þess vegna finnst mér tortryggnin gagnvart þessu rekstrarformi vera allt að því yfirgengileg hjá stjórnarandstöðunni en ég vona að hún sjái ljósið fyrir þennan nýja háskóla sem felst í því að geta byggt hann upp með öflugum hætti. Þetta er ekki ógnun við starfsemina eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson kom inn á, heldur miklu frekar munu þeir sem reka þennan nýja háskóla að sjálfsögðu hafa það að leiðarljósi hvernig hægt er að hlúa að háskólanáminu, akademísku umhverfi o.s.frv.

Ég vil reyna að svara fleiri spurningum, m.a. spurningu frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, þar sem hann fjallaði um fjárhagshliðina, kom m.a. inn á hallann. Sá halli sem er á skólunum er um 130 millj. og hann spurði hvort þetta væri í eitt skipti, hvort þetta væru nokkuð ný útgjöld. Það er alveg hárrétt, þetta er bara eitt skipti, hér er ekki um ný útgjöld að ræða af hálfu ríkisins.

Ég vil líka geta þess að það eru engin áform uppi og það eru engin fyrirheit af hálfu ríkisins um að koma að byggingu nýs húsnæðis fyrir hinn nýja skóla. Hið nýja rekstrarfélag mun algjörlega sjá um það. Það sem meira er, við erum með leigusamning fyrir Tækniháskóla Íslands sem rennur út árið 2009. Afar óhentugt húsnæði, því miður, kostnaðarsamt fyrir Tækniháskólann, óhagstæður leigusamningur, en nú er hins vegar mikið tækifæri uppi fyrir Tækniháskólann að komast mun fyrr í nýtt og glæsilegt húsnæði, þ.e. á árinu 2007 eins og fyrirætlanir hinnar nýju stjórnar hins nýja háskóla bera með sér. Tæknihluti hins nýja háskóla, Tækniháskólinn, mun komast mun fyrr í nýtt og glæsilegt húsnæði ef áform hinna nýju stjórnenda skólans ganga eftir. Það skiptir gríðarlega miklu máli að vel sé hlúð að öllu háskólaumhverfi, hvort sem það eru ríkisháskólarnir eða aðrir háskólar á þessum gróskumikla markaði í samkeppnisumhverfi.

Ég tek undir það með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að mér hefur þótt miður hvernig umræðan um þennan halla hefur þróast. Það er ekki hægt að rekja hann til stjórnenda skólans sem nú eru, síður en svo, því að á árinu 2003 var skólinn rekinn með halla sem samsvarar biðlaunakostnaði starfsmanna Tækniskólans gamla sem létu af störfum við breytinguna í Tækniháskólann. Síðan má bæta við að þessu til viðbótar kom til hallarekstur vegna þessa óhagkvæma húsnæðis sem hann er í, þessa leiguhúsnæðis. Ef þessir tveir kostnaðarliðir hefðu ekki komið til hefði skólinn verið hallalaus árið 2003, og árið 2004 er hann rekinn með rekstrarafgangi. Það er ekki síst fyrir tilstuðlan og þrotlausa vinnu núverandi stjórnenda sem hefur leitt til þessa viðsnúnings á rekstri Tækniháskólans. Það er líka gert í góðu samstarfi við menntamálaráðuneytið. Það hefur orðið viðsnúningur af hálfu Tækniháskóla Íslands.

Menn hafa líka rætt um af hverju hallinn þarna sé felldur niður en ekki við aðra sameiningu annarra háskólastofnana. Þetta er mjög einfalt mál í rauninni. Þegar menn hafa rætt um sameiningu annarra háskólastofnana voru menn að ræða m.a. um Landbúnaðarháskólann. Þar erum við að sameina ríkisstofnanir. Hér erum við að fella niður ríkisstofnun. Þetta er halli sem ríkið myndaði í rauninni og þarf að taka að sér að greiða. Þess vegna færist þessi halli yfir á ríkið, stendur eftir sem fjárskuldbinding og færist væntanlega yfir á ríkið á fjáraukalögum.

Það er mikill munur á því þegar verið er að fella niður ríkisstofnanir eða að sameina þær. Það veit ég að hinn skilningsríki hv. þm. Einar Már Sigurðarson skilur sem hefur verið lengi í fjárlaganefnd, að mig minnir.

Það var líka talað um kennslu í íþróttafræðum. Það mun ekki standa til að skerða kennsluna á Laugarvatni, síður en svo. Menn eru þegar byrjaðir að ræða hvernig hægt verði að efla kennsluna í íþróttafræðum á Laugarvatni. Ef við lítum til sögunnar kvíði ég engu varðandi Laugarvatn eða hina nýju sportakademíu því að samkeppni í háskólamálum sem og á öðrum sviðum samfélagsins hefur leitt til þess að gróskan hefur orðið mun meiri og tækifærum einstaklinganna fjölgað gríðarlega, allt auðvitað samfélaginu til hagsbóta.

Ég vil undirstrika það — ég sé að það er lítið eftir af tíma mínum að þessu sinni — að sameining þessara tveggja merku háskóla hefur verið studd dyggilega af atvinnulífinu, m.a. vil ég vitna í það sem Sveinn Hannesson hefur sagt um það efni í leiðara sínum hjá Samtökum iðnaðarins. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Samningur stjórnvalda, Samtaka iðnaðarins, Samtaka atvinnulífsins og Verslunarráðs Íslands um stofnun nýs háskóla er stórfrétt. Hér ná stjórnvöld og atvinnulíf breiðri samstöðu og ætla að láta verkin tala. Því er ekki að leyna að Samtök iðnaðarins urðu fyrir vonbrigðum á sínum tíma þegar ekki tókst samkomulag um að breyta Tækniskólanum í einkarekinn Tækniháskóla. Nú hefur þetta skref verið stigið og þar með staðfest að einkarekstur skóla er ekki lengur feimnismál eða skammaryrði heldur raunhæf og viðurkennd aðferð til þess að nýta betur opinbert fjármagn. Um leið sýna samtök í atvinnulífinu að þau geta staðið saman um stór verkefni.“

Þetta eru orð sem ég tek undir. Þetta er gríðarlega stórt verkefni sem liggur fyrir Alþingi að fara vel yfir og að sjálfsögðu er það fyrst og fremst til hagsbóta fyrir allt háskólasamfélagið.