131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:01]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Umræða mín um metnaðarleysi sneri fyrst og fremst að ráðherra og ríkisstjórn. Starfsfólk Tækniháskólans hefur unnið af miklum metnaði. Metnaðarleysi hefur verið á skrifstofu ráðherrans, forvera hæstv. ráðherra og núverandi menntamálaráðherra.

Svörin við því hvers vegna á að fara út í einkahlutafélag. Hlutafélagavæðing er það þegar maður stofnar fyrirtæki sem á að geta gengið kaupum og sölum, hlutirnir geta gengið kaupum og sölum, hlutirnir eru markaðsvæddir. Ef þetta er eitthvað brýnt er það af því að allir skólarnir sem núna eru fyrir hendi, Háskólinn í Reykjavík og ríkisháskólarnir, séu svo ömurlegir, starfsemi þeirra svo slæm að keyra verður út í þennan vafasama rekstur á velferðarþjónustu í hlutafélagarekstur? Ég tók dæmi um elliheimilið Sóltún.

Hæstv. ráðherra hefur samt ekki svarað því hvernig nemendur sem eru núna í frumgreinadeild, ef þetta verður að veruleika með þeim hætti sem gert er ráð fyrir, hvaða rétt þeir hafa til þess að taka háskólanám sitt (Forseti hringir.) áfram í skólanum skólagjaldalaust.