131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:05]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá er munurinn að Listaháskólinn er í eigu ríkisins. Ég ætla ekki að láta hæstv. ráðherra þvæla umræðunni út í það fen, því við erum að tala um grunnnám í tæknifræði sem er verið að taka út úr öðru grunnnámi á háskólastigi, setja yfir í einkarekinn skóla og þar með að sjálfsögðu verið að mismuna í samanburði við aðrar greinar grunnnáms í háskólum sem ríkið rekur. Að sjálfsögðu er verið að mismuna því gróflega. Undan því getur ráðherrann ekki vikist.

En aftur að verðmati eigna Tækniháskólans, viðskiptavild hans og öllum eignum og orðspori hans: Er það einskis metið? Af hverju er það einskis metið að því er virðist, auk þeirra meðgreiðslna upp á annað hundrað millj. kr. sem fylgja skólanum? Fór ekki fram verðmat á skólanum á vinnu og verðmat á eignum skólans og vild hans o.s.frv. og öllu því sem hann fer með með sér í hið nýja einkahlutafélag?