131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:06]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu fór fram mat m.a. á eigum og eignum skólans. Þær voru metnar á u.þ.b. 35–40 millj. Það var hafður nákvæmlega sami hátturinn á og þegar ríkið gekk til samninga við Menntafélagið varðandi Stýrimannaskólann og Vélskólann. Það eru leyfð afnot af tækjunum. Þetta eru ýmis tæki, tölvur og fleira sem er einfaldlega metið til þessarar fjárhæðar. Það er nákvæmlega sama fyrirkomulag, fyrir liggja fordæmi hvernig þessum málum er háttað.

Varðandi frumgreinadeildina vil ég ítreka enn og aftur að það verða ekki tekin skólagjöld á þeim sem eru í frumgreinanámi, en það er jafnframt ekki fyrirætlan hinnar nýju stjórnar að meta frumgreinanámið eins og háskólanámið, þannig að ætla má að þeir sem eru í frumgreinadeildinni núna komi til með að borga skólagjöld þegar fram í sækir. (KolH: Þá vitum við það.)