131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:07]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki hægt að koma með allar þær athugasemdir sem maður þarf að gera í stuttu andsvari, þannig að ég geri ráð fyrir að umræðan haldi áfram síðar og þá gefist tækifæri til að fara betur yfir málin. Það virðist blasa við að hæstv. ráðherra telur það algjörlega vera í höndum þeirra sem við eru gerðir samningar hvernig þeir standa að rekstri háskóla. Það segir okkur að hæstv. ráðherra hefur engar kröfur gert í því sambandi og þar af leiðandi líklega ekki óskað eftir neinum skýringum. Þetta er bara allt saman hugsað svo fallega, vegna þess að nú er verið að hugsa allt upp á nýtt á háskólastiginu og nú bjargar samkeppni öllu.

Frú forseti. Það er nauðsynlegt miðað við ræðu hæstv. ráðherra að spyrja hvort hún hafi einhverjar hugmyndir um hvað þeir rekstraraðilar sem eru að taka við hinum nýja háskóla ætla að leggja mikið fjármagn í þá uppbyggingu sem fram undan er varðandi hinn nýja háskóla? Hvaða reglur hugsar ráðuneytið sér að miða við varðandi framlög til nemenda í hinum nýja háskóla?