131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:08]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er rétt að við erum að tala um samkeppni sem við ellegar hefðum ekki verið að ræða um ef hv. þingmaður hefði einhverju fengið að ráða í þeim efnum, en það er önnur saga.

Að sjálfsögðu eigum við eftir að gera kennslusamning við hinn nýja háskóla. Það verður haft sama fyrirkomulag og gagnvart öðrum háskólum, það eru ákveðin nemendaígildi sem ríkið borgar fyrir og ekki meira. Þannig er það. Hinn nýi háskóli mun að sjálfsögðu og hefur þegar veitt fyrirheit um að hann komi til með að leggja í ákveðnar fjárhagsskuldbindingar, sér í lagi varðandi nýja húsnæðið, og við eigum að fagna því.

Við eigum að fagna því að atvinnulífið sé með þessum hætti að koma með öflugan stuðning í háskólasamfélagið. Í stað þess að karpa um allt að því smáatriði eiga menn frekar að fagna því og reyna að huga að því hvernig hægt sé að efla bæði þennan háskóla sem og alla aðra háskóla í landinu.