131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Náms- og starfsendurhæfing fyrir geðsjúka.

[10:01]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna ástandsins sem blasir við ef ekkert verður að gert í málefnum náms- og starfsendurhæfingar fyrir geðsjúka á vegum Fjölmenntar og Geðhjálpar en alger óvissa ríkir um framtíð þjónustunnar við þá 140 einstaklinga sem óska eftir áframhaldandi námi nú eftir áramótin.

Í haust sóttu um 140 manns um að komast í þetta nám en aðeins 80–90 fengu tilboð með ákveðnum takmörkunum og 50 manns fengu ekki nám. 6 millj. komu þá frá menntamálaráðuneytinu svo að hægt var að hefja námið í haust. Frá því í ágúst hafa verið viðræður milli menntamálaráðuneytisins og Geðhjálpar og Fjölmenntar um að endurskoða þjónustusamning og hafði menntamálaráðuneytið tilkynnt bæði Fjölmennt og Geðhjálp að búið yrði að ganga frá því máli fyrir 1. desember. Nú er 8. desember og ekkert hefur heyrst frá menntamálaráðuneytinu.

Fyrir þinginu liggur reyndar fyrirspurn um þetta mál sem ekki átti að svara fyrr en eftir áramót en vegna þess hve alvarleg staða málsins er ákvað ég að taka málið upp hér undir liðnum um störf þingsins.

Þannig er mál með vexti að þessi tími, skammdegið, er ákaflega erfiður fyrir geðsjúka. Óöryggið og óvissan fram undan er slæm fyrir bæði nemendur og aðstandendur. Ég vil spyrja hæstv. menntamálaráðherra sem ég þakka fyrir að hafa komið til að svara þessari umræðu: Hvar stendur þetta mál? Þurfa geðsjúkir sem þurfa menntun að bíða áfram í óvissu? Þetta getur verið lífsspursmál fyrir marga þeirra. Ég veit að þetta líður fyrir það að heyra undir fleiri en einn ráðherra en menntamálaráðherra hefur verið með þetta mál á sinni könnu og ég óska hér með eftir því, virðulegi forseti, að upplýst verði hver staða málsins er.