131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Náms- og starfsendurhæfing fyrir geðsjúka.

[10:06]

Þuríður Backman (Vg):

Herra forseti. Öryrkjum fjölgar nú um 700 á ári og þá mest í yngri aldurshópunum. Það er mikilvægt að nota öll þau úrræði sem til eru til að halda bæði geðsjúkum og geðfötluðum virkum úti í þjóðfélaginu. Fólk festist í hlutverki öryrkja og það er hlutverk sem við eigum að reyna að forðast.

Samstarfsverkefni Fjölmenntar og Geðhjálpar hófst í byrjun árs 2003. Það hefur sýnt sig að þar er unnið mikilvægt starf. Námið hefur nýst geðfötluðu fólki mjög vel. Námið kemur til móts við þarfir geðfatlaðra og einstaklinga sem hafa flosnað úr námi en vandamálið er það að þrjú ráðuneyti koma að málinu. Við þekkjum það öll að það er erfiðara að koma á samningum þegar fleiri en eitt ráðuneyti eiga í hlut. Ég hvet hæstv. menntamálaráðherra til að beita sér í þessu máli og fá til liðs við sig bæði félagsmála- og heilbrigðisráðherra til að ganga þegar frá þjónustusamningi við Fjölmennt og Geðvernd um áframhaldandi nám. Það er búið að loka fjárlögum og þetta er eitt af mörgum verkefnum sem ég tel að muni banka fljótlega upp á á þeim fáu dögum sem eftir eru fram að þinghléi og strax á næsta ári. Það vantar fjármagn inn í stoðþjónustu sem er utan stofnana. Það er ekki nóg að greina, það þarf líka að bjóða upp á meðferðarúrræði og þetta meðferðarúrræði er mjög til bóta og gefur fólki góða von.