131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Náms- og starfsendurhæfing fyrir geðsjúka.

[10:08]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að taka undir orð hv. þingmanna um að mikilvægt sé að leiða þetta mál til lykta. Vissulega eru vonbrigði að heyra að ekki hafi náðst niðurstaða í samræður og viðræður Fjölmenntar annars vegar og fulltrúa menntamálaráðuneytisins hins vegar. Það er ástæða til að skora á ráðherrana þrjá sem hér eiga í hlut að setjast niður og klára þetta mál. Það væri fróðlegt að heyra viðhorf hæstv. heilbrigðisráðherra sem er staddur í salnum núna því að hæstv. menntamálaráðherra hefur tjáð vilja sinn til að klára þetta mál þannig að sómi sé að.

Það leikur enginn vafi á því að Fjölmennt og þau tækifæri sem það opnar geðfötluðum og þeim sem eiga við slík vandamál og veikindi að stríða dyrnar aftur út í samfélagið, eykur þeim sjálfstraust og hæfi til að takast á við tilveruna á nýjan leik þegar fólk er að rísa upp úr erfiðum veikindum sem er erfitt að meðhöndla. Þá er enn þá erfiðara að finna oft fótum sínum forráð í tilverunni þegar þeirri leið í sjúkdómsgöngunni sleppir og mjög mikilvægt að auka aðgengi að menntun og tækifærum til að takast þannig á við tilveruna og fjölga tækifærum þessa fólks á atvinnumarkaði. Oft er um að ræða fólk sem hefur flosnað snemma upp úr námi án þess að ljúka annarri skólagöngu en grunnskólanum vegna veikinda sinna. Þess vegna er ekki síst áríðandi að leiða málið til lykta af festu, og fljótt. Þetta eru litlir peningar en mikilvægt mál. Þess vegna er ástæða til að skora á ráðherrana þrjá að beita sér af fullri hörku í þessu máli og leiða það til lykta svo fljótt sem verða má.

Óvissan og óöryggið er alvarlegt fyrir þetta fólk og því ástæða til að ljúka málinu.