131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Náms- og starfsendurhæfing fyrir geðsjúka.

[10:10]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ekki efast sá sem hér stendur um góðan vilja þeirra ágætu ráðherra sem að þessu máli koma til lausnar á því en betur má ef duga skal. Það er rétt sem fram kom hjá hæstv. menntamálaráðherra að hún beitti sér síðasta haust fyrir því að í verkefnið fengust 6 millj. Það dugði þó ekki nema til að mæta tveimur þriðju hluta þarfarinnar núna í haust. Umsækjendur um þá menntun og endurhæfingu sem hér er í boði voru um 140 en aðeins var hægt að taka á móti 80–90 manns.

Hér er um litlar fjárhæðir að ræða og það er fagnaðarefni að þeir sem stríða við geðfötlun leiti sjálfir eftir og hafi frumkvæði að því að leita eftir endurhæfingu og menntun af því tagi sem hér um ræðir. Þeim eiga að standa þær dyr opnar. Það er óviðunandi að það sé biðlisti geðfatlaðra eftir úrræðum sem ekki eru kostnaðarmeiri en hér um ræðir. Við getum ekki í þessum sölum undrast yfir því annan daginn að öryrkjum sem ekki eru á vinnumarkaði fari fjölgandi ár frá ári og sjá ekki síðan, ég vil segja, af smáaurum í nauðsynleg verkefni af þessu tagi. Ég treysti því að þeir ráðherrar sem hér eiga hlut að máli leggist saman á árarnar og nái þessu máli í land, eins og ég trúi og treysti að vilji þeirra standi til.