131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Náms- og starfsendurhæfing fyrir geðsjúka.

[10:12]

Drífa Hjartardóttir (S):

Herra forseti. Hér er hreyft afskaplega mikilvægu máli í dag. Sem betur fer er öll umræða um geðfatlaða opnari í dag en hún var fyrir nokkrum árum. Þetta er, eins og hefur komið fram, afar viðkvæmur tími fyrir marga og allt starf með geðfötluðum skiptir afskaplega miklu máli, ekki bara fyrir þá sem einstaklinga heldur okkur öll sem samfélag.

Það er mikil og brýn þörf fyrir starfsmenntun og starfsþjálfun og ég vil í þessu minna á aukin úrræði sem eru að verða fjölbreytt sem betur fer. Ég minni á klúbbinn Geysi þar sem fer fram mjög markviss vinnumiðlun og uppbygging einstaklingsins, og samsvarandi klúbbar eru komnir á stofn bæði á Selfossi og í Reykjanesbæ. Ég held að þetta sé með því mikilvægara sem við komum að, þ.e. að byggja upp einstaklinginn, tala opinskátt um vandamálin og gera þá hæfari til að komast út í samfélagið sem fyrst.