131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Náms- og starfsendurhæfing fyrir geðsjúka.

[10:13]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að þessu máli sé hreyft. Það er meira en tímabært. Eiginlega er alveg til skammar að ekki skuli vera komin niðurstaða hvað varðar þá önn sem á að hefjast í janúarmánuði nk. Ég verð að segja að mér fundust svör hæstv. menntamálaráðherra, ef svör skyldi kalla, heldur deyfðarleg. Stjórnvöld eiga auðvitað að taka því fagnandi að eiga kost á samstarfi við aðila eins og Geðhjálp um svona verkefni. Það er að mínu mati fyrst og fremst þannig sem á að líta á hlutina. Það er til fyrirmyndar, og stjórnvöld eiga að taka því fegins hendi að eiga kost á samstarfi við slíkan aðila sem leggur mikið af mörkum. Það að láta það vera í óvissu út af einhverjum smávægilegum fjármunum er svo sannarlega að kasta krónunni og spara eyrinn. Ef það er eitthvað sem er tiltölulega óumdeilt að er jákvætt og getur sparað mikla fjármuni, fyrir utan mannlega þáttinn, er það auðvitað að styðja fólk til endurhæfingar og aðstoða það út í lífið, út á vinnumarkaðinn á nýjan leik eftir að hafa lent í veikindum eða erfiðleikum af þessu tagi.

Svo vil ég segja að lokum að menn eru að tala um að þetta sé eitthvert vandamál af því að þetta heyri undir þrjú ráðuneyti. Það er engin afsökun, eitt ráðuneyti tekur ósköp einfaldlega forustu fyrir verkefnum af þessu tagi. Ég hélt að hæstv. ríkisstjórn fundaði nógu oft og að sessunautarnir gætu leyst úr því hver það er. Mér skilst að það sé þá hæstv. menntamálaráðherra, og það er vel. Þar með er það í höfn og það er engin afsökun þó að tvö eða fleiri ráðuneyti leggi sitt af mörkum og um viðfangsefni af því tagi sé að ræða sem að hluta til heyrir undir fleiri en eitt málasvið. Það er engin afsökun fyrir því að þetta sé í einhverjum seinagangi og vandræðum. Það á að klára þetta mál í hvelli.