131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu.

168. mál
[10:42]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. s. hefur beint til mín fyrirspurn um heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu.

Í fyrsta lagi spyr þingmaðurinn um fjölda íbúa á höfuðborgarsvæðinu sem hafi ekki aðgang að heimilislækni eða aðgang að heilsugæslustöð og á hverju þær tölur byggist.

Samkvæmt upplýsingum frá heilsugæslunni í Reykjavík sem byggjast á talningu úr sjúkraskrá voru í byrjun nóvember á milli þrjú og fjögur þúsund íbúar í Reykjavík, Kópavogi og Seltjarnarnesi án heimilislæknis.

Í öðru lagi spyr hv. þm. um fjölda heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu, fjölda stöðugilda við hverja þeirra og hve margir njóti þjónustu hverrar um sig.

Því er til að svara að á höfuðborgarsvæðinu voru alls 15 heilsugæslustöðvar, þar af 13 á svæði heilsugæslunnar, þ.e. í Reykjavík, Kópavogi, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ. Tölurnar sem ég fer yfir á eftir um fjölda á þjónustusvæðum stöðvanna, fjölda þeirra sem njóta þjónustu þeirra og fjölda ársverka á hverri stöð, ná ekki yfir Garðabæ, Hafnarfjörð og Álftanes.

Fram kemur að rúmlega 21 þúsund manns séu skráðir hjá sjálfstætt starfandi heimilislæknum.

Ef rætt er um mannfjölda á þjónustusvæði í maí 2004 og hve margir eru skráðir með heimilislækni í nóvember 2004 og hve mörg ársverk voru á viðkomandi heilsugæslu árið 2003, þá er ég með sundurliðaðar tölur um það hér en tíminn leyfir ekki að ég lesi það, en ég fer yfir niðurstöðutölurnar í þessu.

Mannfjöldinn á þjónustusvæðum er í maí 2004 150.318. Skráðir með heimilislækni eru 147.540. Og ársverk á viðkomandi heilsugæslu árið 2003 eru 254.

Hv. þm. spyr hvað gert sé ráð fyrir að þær tvær heilsugæslustöðvar sem áætlað er að koma á fót á þessu ári muni þjóna mörgum íbúum.

Í maí sl. voru íbúar á svæði heilsugæslustöðvarinnar í Salahverfi tæplega 5.800 en áætlað er að í hverfinu verði um 10 þúsund íbúar þegar það er fullbyggt. Í Voga- og Heimahverfi voru tæplega 4.500 íbúar í maí sl., en heilsugæslustöð mun taka til starfa þar á næsta ári.

Loks er spurt um hve mikið komum fjölgaði á heilsugæslustöðvar á síðastliðnu ári og hvað sé talið skýra fjölgunina.

Komum til læknis á heilsugæslustöðvar í Reykjavík, Kópavogi, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ fjölgaði á árinu 2003 um 11.640, þ.e. um 7,3%. Fyrstu átta mánuði þessa árs fjölgaði komum enn, um 16.788 sem svarar 16,1% ef miðað er við sama tímabil árið áður. Í þessum tölum eru hvorki komur í heilsuvernd né komur á einkareknu heilsugæslustöðvarnar í Lágmúla og Salahverfi í Kópavogi. Bætt aðgengi að heilsugæslustöðvunum og tilflutningur þjónustu, m.a. frá bráðamóttökum, eru helstu skýringar á þessari aukningu að mati forsvarsmanna heilsugæslunnar.