131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Samræmt gæðaeftirlit með háskólum.

283. mál
[10:56]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Varðandi fyrri spurningu hv. þingmanns er í lögum um háskóla að finna almennt ákvæði um gæðaeftirlit á háskólastigi en skv. 4. gr. skal menntamálaráðherra hafa eftirlit með gæðum menntunar sem háskólar veita og að þeir uppfylli ákvæði laganna.

Árið 1999 voru gefnar út reglur um gæðaeftirlit með háskólakennslu á grundvelli þessara laga. Þær voru síðan endurskoðaðar árið 2003. Reglurnar gilda um allar háskólastofnanir sem heyra undir menntamálaráðuneytið, það er rétt að taka það fram. Samkvæmt reglunum skal hver háskólastofnun hafa eftirlit með gæðum kennslunnar á grundvelli formlegs gæðakerfis. Það felst m.a. í kerfisbundnu sjálfsmati stofnunarinnar eða eininga innan hennar og formlegri umfjöllun um matið til þess að bæta kennsluna. Þá skal einnig fara fram kerfisbundið mat á störfum kennara.

Hnykkt er á þessu í samningum ráðuneytisins við hverja háskólastofnun þar sem lögð er áhersla á að þróað sé formlegt gæðakerfi og lýsing á því birt opinberlega. Einnig er ákvæði í lögum um ytra mat á háskólastofnunum. Það getur náð til stofnunarinnar í heild, einstakra greina, skora, námsbrauta, deilda eða annarra skilgreindra eininga. Þá getur ytra gæðamat náð til nokkurra skóla eða eininga í senn. Við ytra gæðamatið er fjallað um alla þætti sem varða kennslu, svo sem innihald náms, kennslufyrirkomulagið, stjórnun, starfsmannamál, námsmat, málefni nemenda og aðbúnað.

Rektor viðkomandi háskólastofnunar skipar sjálfsmatshóp sem starfar samkvæmt leiðbeiningum er ráðherra setur. Formaður hópsins skipuleggur starfið, ber ábyrgð á sjálfsmatinu og ritun sjálfsmatsskýrslu. Í hópnum eiga fjórir til sex fulltrúar sæti og skulu allir starfa innan viðkomandi einingar og vera fulltrúar kennara, nemenda og stjórnenda. Að loknu sjálfsmati fer ytri matshópur á vettvang, sannreynir sjálfsmatsskýrslu, kannar önnur þau atriði sem hann telur nauðsynleg og ritar skýrslu um niðurstöður sínar.

Langflest lönd í Evrópu, m.a. öll Norðurlöndin, skylda háskólastofnanir til að koma upp formlegu gæðakerfi en munur er eftir löndum hvort stofnanir hafi frjálsar hendur um aðferðir eða þurfi að uppfylla ákveðin viðmið. Það ferli við ytra gæðamatið sem lýst er hér að ofan er svokallað fjögurra þrepa módel sem er notað í flestum löndum Evrópu, að mér skilst.

Varðandi seinni spurninguna er rétt að fara aðeins yfir tilurðina og markmið Bologna-yfirlýsingarinnar sem menntamálaráðherrar Evrópu gáfu en gerð er grein fyrir þeim tilmælum við mat á gæðum háskóla sem ráðherrar hafa síðan komið sér saman um. Það er ekki um að ræða fyrirmæli frá neinum aðila, heldur er þetta samkomulag um framgangsmáta. Bologna-yfirlýsingin er yfirlýsing sem menntamálaráðherrar 29 Evrópuríkja undirrituðu 1999 en markmiðið með henni er að vinna sameiginlega að því að gera Evrópu að samfelldu menntunarsvæði árið 2010. Með undirritun sinni tóku Íslendingar m.a. undir þau markmið Bologna-yfirlýsingarinnar að efla samstarf í Evrópu til að tryggja gæði háskólanáms. Þetta höfum við undirritað. Í Bologna-yfirlýsingunni er einungis getið um gæðatryggingu, þ.e. að efla skuli samstarf til þess að þróa sambærileg viðmið og aðferðafræði.

Á næsta ráðherrafundi á eftir Bologna-ferlinu sem haldinn var í Prag 2001 var nokkuð ítarlega fjallað um samstarf um gæðatryggingu en í yfirlýsingu fundarins segir m.a. að ráðherrarnir geri sér ljóst hið mikilvæga hlutverk gæðatryggingakerfa til að standa vörð um gæði háskólamenntunar og auðvelda samanburð á prófgráðum í Evrópu. Hvatt er síðan til nánara samstarfs matsstofnana og gæðatrygginganeta og lögð áhersla á mikilvægi gagnkvæms trausts á milli þeirra. Ráðherrarnir beindu því til háskóla og annarra æðri menntastofnana, matsstofnana og Evrópunets um gæðamat æðri menntunar, INKQA, að vinna að því að þróa sameiginleg viðmið. Menntamálaráðuneytið hefur átt aðild að þessu Evrópuneti um gæðamat æðri menntunar frá stofnun þess 1999.

Þriðji ráðherrafundurinn í Bologna-ferlinu var haldinn í Berlín 2003 og þar lögðu ráðherrarnir áherslu á að gæði æðri menntunar séu þungamiðjan í uppbyggingu evrópska menntasvæðisins en samkvæmt grundvallarreglunni um sjálfstæði stofnana hvílir ábyrgðin á gæðamati fyrst og fremst á herðum menntastofnananna sjálfra. Í Berlín fóru ráðherrarnir þess á leit við fyrrnefnt Evrópunet um gæðamat að í samvinnu við Evrópusamtök háskólastofnana og samtök nemenda verði þróaðir sameiginlegir staðlar, verkferlar og leiðbeiningar til að tryggja gagnkvæmni eftirlitskerfa.

Eins og fyrr segir fylgist íslenska háskólasamfélagið með allri þeirri vinnu sem fer fram innan Bologna-ferlisins, ekki síður en yfirvöld sjálf. Varðandi gæðatryggingamálin er horft til niðurstöðu vinnunnar sem nú fer fram innan ferilsins sem getur væntanlega hentað hér á landi eins og í öðrum löndum Evrópu og orðið viðbót við það gæðamat sem nú þegar fer fram í háskólum hér á landi.